Grindvíkingurinn Alma Rut Garðarsdóttir missti af allri síðustu leiktíð með Grindavíkurkonum í Iceland Express deild kvenna sökum meiðsla. Alma Rut leikur einnig knattspyrnu með GRV og í fótboltaleik varð hún fyrir því óláni að slíta krossbönd. Karfan.is ræddi stuttlega við Ölmu sem er óðar komast í sitt fyrra horf.
,,Ég er búin að æfa körfu síðan fótboltinn kláraðist í sumar þannig að ég byrjaði bara að æfa rétt fyrir Íslandsmótið. Ég spilaði ekkert í fyrsta leik, eina mínútu í Keflavíkurleiknum og svo spilaði ég um 20 mínútur gegn KR. Eftir KR leikinn kom svínaflensann í heimsókn og því missti ég af síðasta leik,“ sagði Alma svo það hefur ekki gengið áfallalaust að komast af stað í sportinu að nýju.
 
,,Ég verð á fullu í bæði fótboltanum og körfunni í vetur og vonandi nær maður bara að stimpla sig inn í liðið í vetur og ná að spila nokkrar mínútur,“ sagði Alma létt í bragði og telur að hún hafi komið ágætlega út úr krossbandaslitunum.
 
,,Ég spilaði alla seinni umferðina í Pepsi-deildinni í sumar, 90 mínútur í öllum leikjum þannig að endurkoman gengur bara mjög vel,“ sagði Alma en oftast eru leikmenn frá í 10 mánuði og jafnvel lengur eftir krossbandaaðgerðir.
 
Ef svínaflensann verður ekki að trufla Ölmu ætti hún að verða í baráttunni í kvöld með Grindavík gegn Hamri.