21:52
{mosimage}
Íslensku stelpurnar áttu ekki í miklum vandræðum með þær írsku á Ásvöllum í kvöld og höfðu mjög öruggan sigur 77-68.

Stelpurnar komu vel stemmdar til leiks og settu fyrstu sex stigin.  Munurinn í fyrsta leikhluta hélst í einu til fjórum stigum og var það helst fyrir klaufaskap íslensku stúlknanna að hann varð ekki meiri, því mörg góð opin skot fóru forgörðum.  Varnarleikurinn var hins vegar til fyrirmyndar og fengu þær írsku ekkert gefins.  Þrátt fyrir þetta munaði aðeins 4 stigum eftir fyrsta leikhluta.

Eitthvað hefur lagavalið á Ásvöllum farið í þær írsku, en boðið var upp á Thriller með Michael Jackson og virtist það deyfa gestina það duglega að íslensku stelpurnar áttu ekki í miklum vandræðum með að finna leiðina að körfunni.  Leikhlutinn hófst með 9-2 áhlaupi þar sem þær írsku virtust ekki vera með.  Írska þjálfaranum var hætt að lítast á blikuna og kallaði liðið saman til tedrykkju á bekknum, sem dugði þó skammt því áfram jókst munurinn allt fram að hálfleik, 35-25 fyrir þær íslensku.  Vörnin var aðalsmerki íslenska liðsins í fyrri hálfleik eins og tölurnar bera með sér, en að sama skapi var sóknarnýtingin nokkuð undir pari.  Þær írsku gátu ómögulega fundið glufu á íslensku vörninni enda þær íslensku fastar fyrir og vel skipulagðar.

{mosimage}

Írar komu með miklum atgangi inn í seinni hálfleikinn og virtist sem svo að þær hafi aldrei lært hvernig borða eigi fíl, því svo virtist sem þær ætluðu að gleypa hann í einum bita.  Íslenski fíllinn var þó of stór munnbiti fyrir þær írsku og eftir ágætt en skammvinnt áhlaup gestanna kom drápseðlið upp hjá stelpunum þar sem þær léku við hvern sinn fingur og spiluðu Írana oftar en ekki sundur og saman.  Írsku stelpurnar reyndu ýmsar útgáfur af varnarleik til að hemja þær íslensku, en það var engum böndum á þær komið og munurinn 18 stig eftir þriðja leikhluta, 61-43.  Slök írsk 1-2-1-1 svæðispressa virkaði álíka vel og bilaður Trabant.

Fjórði leikhlutinn byrjaði skörungslega þar sem íslensku stelpurnar héldu uppteknum hætti og virtust ætla bókstaflega að hlaupa yfir þær írsku. Sóknarleikurinn var til fyrirmyndar, en illa gekk þó á köflum að koma boltanum niður í körfuna.  Það hafði þó ekki áhrif því þær írsku sýndu lítinn áhuga á að skora hinu megin vallarins og því jókst munurinn jafnt og þétt upp í 23 stig, 68-45.  Það skipti engum togum, fyrst leikurinn var svo gott sem í höfn að íslenska liðið fór að leika á methraða og gerðu stelpurnar sig sekar um mörg mistök í restina.  Þær írsku pressuðu stíft og gerðu hvað þær gátu til að leika mun hraðar og fórst það betur úr hendi en þeim íslensku, það dugði þó ekki til því munurinn var orðinn of mikill og íslensku stelpurnar lönduðu því mjög öruggum sigri 77-68.

Helena Sverrisdóttir, Birna Valgarðsdóttir og Signý Hermannsdóttir báru leik íslenska liðsins að mestu uppi en fengu við það góða hjálp þá sér í lagi frá Kristrúnu Sigurjónsdóttur og Sigrúnu Ámundardóttur sem skiluðu mikilvægu framlagi inn af bekknum.  Birna sá um að slökkva á stigahæsta leikmanni B-deildar, Susan Moran og skoraði hún aðeins 11 stig (öll í seinni hálfleik) en var með skelfilega skotnýtingu.  Liðsvörn íslenska liðsins var góð allt þar til í lokin og áttu þær írsku engin svör á hálfum velli, það var í raun ekki fyrr en leikurinn fór að leysast upp í lokin sem þeim tókst að finna leiðina að körfunni og setja nokkrar auðveldar körfur.

Næsti leikur íslensku stúlknanna er á laugardag gegn Svartfjallalandi, en þá verður leikið í Smáranum í Kópavogi.

Snorri Örn Arnaldsson