18:47
{mosimage}
Austurríkismenn báru sigurorð af Íslendingum í lokaleik A-landsliðs karla í B-deild EM, 65-76, en leikið var í Smáranum í Kópavogi.

Það byrjaði ekki byrlega fyrir Ísland þar sem liðið var gjörsamlega á rassgatinu og ekki heil brú í leik íslenska liðsins.  Gestirnir frá Austurríki gengu á lagið og völtuðu yfir afspyrnuslaka Íslendinga.  Það tók gestina ekki nema um 5 mínútur að ná 16 stiga forystu, 4-20 og ekkert sem benti til annars en að sigur Austuríkismanna væri svo gott sem í höfn.  Þá loksins vöknuðu Íslendingar til lífsins og bitu frá sér þannig að aðeins munaði 6 stigum eftir fyrsta leikhluta, 17-23.  Það var fyrst og fremst frábær innkoma Loga Gunnarssonar og Hlyns Bæringssonar sem kom okkur aftur inn í leikinn.

{mosimage} 

Annar leikhluti byrjaði frábærlega og settu Íslendingar fyrstu sex stigin og hreint út sagt ömurleg byrjun liðsins horfin af stigatöflunni og leit út fyrir hörkuleik, allt þar til í stöðunni 28-28, en þá virtist sem sá kraftur sem var í liðinu mínúturnar á undan væri með öllu horfinn.  Vörnin opnaðist trekk í trekk og að sama skapi gekk ekkert hjá Íslendingum að finna körfuna hinu megin vallarins, Austurríkismenn voru því komnir 11 stigum yfir í hálfleik og heilt yfir dapur fyrri hálfleikur Íslendinga að baki.

 {mosimage}

Hálfleikshléið gerði lítið til að hjálpa Íslendingum og var leikur liðsins enn jafn slakur áfram framan af.  Þegar líða fór á batnaði vörnin umtalsvert og gaf íslenska liðinu tækifæri á að komast aftur almennilega inn í leikinn sem tókst, en á skömmum tíma tókst að minnka muninn úr 38-50 í 45-52 og allt galopið.  Það tókst ekki að fylgja því eftir og höfðu Austurríkismenn meiri kraft út leikhlutann sem endaði 48-60.

Íslendingar komu með almennilegan kraft inn í fjórða leikhluta og virtust loks hafa trú á verkefninu, en á fyrstu fimm mínútum leikhlutans breyttist staðan í 61-63.  Enn og aftur tókst ekki að fylgja góðum kafla eftir og allt fór til fyrra horfs, engu breytti hvað Íslendingar reyndu síðustu mínútur leiksins, ekkert gekk upp og tókst Austurríkismönnum því að klára leikinn nokkuð örugglega 65-76.

{mosimage} 

Sú frammistaða sem boðið var upp á af karlalandsliðinu var langt undir pari, því það er alveg ljóst að íslenska karlalandsliðið á ekki undir nokkrum kringumstæðum að tapa fyrir þessu austurríska landsliði hér á Íslandi.  Of margir leikmenn léku langt undir getu og þar munar of miklu.  Helst vantaði upp á baráttu á köflum og virtist sem margir leikmenn væru sáttir við þá stöðu sem uppi var. Miklu munaði um dapra þriggja stiga nýtingu liðsins, en aðeins 6 af 29 þriggja stiga skotum sem tekin voru fóru rétta leið, það gerir 20,7% nýtingu.  Að sama skapi munar miklu um að Austurríkismenn fengu að ráða hraðanum og spiluðu því leikinn meira og minna á hálfum velli, bæði vörn og sókn.  Í hvert sinn sem Íslendingar náðu áhlaupi tókst að keyra upp hraðann og fá auðveldar körfur, þeir kaflar voru bara of fáir og of langt á milli.

Skárstir Íslendinga voru Logi Gunnarsson með 17 stig og 100% nýtingu í tveggja stiga skotum, Jón Arnór Stefánsson með 16 stig og 9 fiskaðar villur en engu að síður hefur piltur þó oft leikið betur, Pavel Ermolinskij með 10 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar og Hlynur „nýliði“ Bæringsson með 5 stig og 8 fráköst.

Snorri Örn
Myndir: nonni@karfan.is