16:07
{mosimage}
Kvennalandsliðið tapaði leik sínum gegn Svartfjallalandi 62-77, en gestirnir reyndust í það minnsta einu númeri of stórir.

Leikurinn hófst ekki byrlega fyrir íslensku stelpurnar, þar sem gestirnir settu fyrstu 4 stig leiksins og komu þeim íslensku ítrekað í vandræði.  Leikur íslenska liðsins var verulega daufur og aðeins Helenu og Birnu tókst að koma boltanum í körfuna allan fyrsta leikhlutann.  Varnarleikur gestanna tókst að gera allar aðgerðir okkar stúlkna erfiðar og kom þar með í veg fyrir að liðið komist á skrið og leiddu Svartfellingar 8-19 eftir fyrsta leikhluta.

{mosimage} 

Ræða Hennings milli leikhluta hafði greinilega einhver áhrif, en sóknarleikur liðsins batnaði til mikilla muna og fleiri leikmenn að setja stig á töfluna.  Varnarlega var liðið þó enn í vandræðum og það reyndist oft á tíðum of auðvelt fyrir gestina að finna leiðina að körfunni eða galopin skot utan af velli, jafnvel án þess að setja upp sóknarleik sinn.  Kraftlaust íslenskt lið fór því inn í hálfleik 15 stigum undir.

Hálfleiksræða Hennings hefur greinilega hrifið því það var mun meiri kraftur í öllum aðgerðum stúlknanna strax í upphafi seinni hálfleiks.  Kristrún og Sigrún byrjuðu seinni hálfleikinn og komu með mikinn kraft inn í liðið og gerðu stúlkurnar sig líklegar til að saxa á forystu gestanna.  Því miður kom það upp úr krafsinu að dómarar leiksins höfðu gleymt flautum sínum inni í klefa í hálfleik og komust gestirnir upp með mjög fastan leik og mörg aukaskref í sínum aðgerðum, en það vakti litla hrifningu á íslenska bekknum, en við það uppskar Henning aðvörun frá einum dómara leiksins.  Það verður þó að segjast að mótmæli Hennings voru fyllilega eðlileg og aðvörun dómaranna hefði átt að snúa að þeim sjálfum á þessum tímapunkti.  Þetta hafði þó takmörkuð áhrif á stelpurnar og hélst krafturinn í liðinu út allan leikhlutann.  Gott svartfellskt lið lét þó ekki buga sig og hélt til varamannabekkjarins 13 stigum yfir þegar 10 mínútur voru eftir, 41-54.

{mosimage} 

Fjórði leikhlutinn var sveiflukenndur, stelpurnar sýndu fína takta en andstæðingurinn var einfaldlega of sterkur til að hægt væri að vinna muninn niður svo nokkru næmi. 

Helena Sverrisdóttir sýndi það enn einu sinni að hún er í sérflokki af íslenskum leikmönnum, en hún mætti til leiks sárþjáð af meiðslum sem hún varð fyrir úti í Slóveníu fyrir viku síðan.  Engu að síður sallaði hún 23 stigum á gestina og lék best ásamt Birnu Valgarðsdóttur, sem átti enn einn stórleikinn með landsliðinu þetta haustið.  Birna skilaði 18 punktum og hirti auk þess 8 fráköst, 6 þeirra sóknarmegin.  Miklu munaði um að góðir leikmenn eins og Hildur Sigurðardóttir náðu ekki að sýna sitt rétta andlit, en hún hefur mátt muna sinn fífil fegurri.

Landsleikurinn í dag var síðasti leikur kvennalandsliðsins í B-deild EM 2008-2009 og enduðu stúlkurnar í 5. sæti A-riðils með 12 stig.

{mosimage}

{mosimage}

Snorri Örn
Myndir: nonni@karfan.is