14:08
{mosimage}

(Liðsmenn fyrsta meistaraflokksliðs Stjörnunnar í körfuknattleik)

Stjarnan hefur stofnað meistaraflokk kvenna í körfuknattleik í fyrsta sinn í sögu félagsins. Meistaraflokkinn skipa konur sem spiluðu áður undir merkjum Ármanns í 1. deildinni. Stofnun meistaraflokksins kom þannig til að liðið hafði samband við stjórn körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og óskaði eftir því að liðið fengi að æfa og spila undir merkjum Stjörnunnar á komandi vetri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar.

Liðið hefur síðustu ár þurft að búa við aðstöðuleysi til æfinga og hafa þurft að sætta sig við fáa og lélega æfingatíma og stöðugt flakk milli íþróttahúsa innan Reykjavíkur.  Stjórn körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar tók strax vel í beiðnina enda er það á stefnuskrá deildarinnar að byggja upp kvennakörfu í Garðabæ. Einnig er öll aðstaða til íþróttaiðkunar að taka stakkaskiptum fyrir félagið með tilkomu nýs fimleikahúss, auk þess að verið er að leggja lokahönd á nýtt íþróttahús í Sjálandsskóla í Garðabæ. Þar með rýmkast verulega til fyrir æfingtíma körfuknattleiksdeildar.

Tilkoma meistaraflokks kvenna verður mikil lyftistöng fyrir Stjörnuna og mun án efa auka áhuga ungra stúlkna í Garðabæ til að iðka körfuknattleik. Stefnt er að því að bjóða uppá tvo flokka fyrir stúlkur í haust og munu leikmenn meistaraflokks koma að þjálfun þeirra og kynningu á starfi deildarinnar. Í gærkvöldi var fyrsta æfing hjá meistaraflokki á nýslípuðu og lökkuðu parketinu í Ásgarði og var meðfylgjandi mynd tekin við það tilefni. Æfingahópurinn telur um 14 stúlkur og þjálfari liðsins er Berry Timmermans. Það verður spennandi að sjá stelpurnar í 1. deildinni í vetur, en þegar hefur verið óskað eftir keppnisheimild liðsins í vetur undir merkjum Stjörnunar.

 

,,Það má segja að beiðnin frá stelpunum um að fá að koma og spila hjá Stjörnunni hafi komið á hárréttum tíma fyrir okkur. Við höfum sl. 2 tímabil reynt að setja af stað körfuknattleik fyrir stúlkur í Garðabæ en það hefur ekki gengið eins vel og við höfum vonast til. Með því að fá heilan meistaraflokk á einu bretti til að spila fyrir hönd Stjörnunnar og koma að uppbyggingu körfubolta fyrir stúlkur verður mikil lyftistöng fyrir okkur. Auk þess er aðstaðan að taka stakkaskiptum því fimleikahúsið mun rísa von bráðar og þá verður mun rýmra um okkur og auðveldara að bjóða uppá æfingar fyrir fleiri flokka. Við horfum bjartsýn fram á veginn og hlökkum til við að byggja upp öflugt kvennastarf í körfubolta innan Stjörnunnar. Það verður gaman að sjá stelpurnar spila í vetur í 1. deildinni,“ sagði Gunnar Kristinn Sigurðsson formaður KKD Stjörnunnar í samtali við Karfan.is.

,,Ástæðan fyrir því að við höfðum samband við Stjörnuna er einföld. Síðustu árin hefur Ármanns liðið þurft að æfa mjög seint á kvöldin. Hefur það orðið til þess að margar stelpur hafa þurft að hætta þar sem æfingatíminn hefur ekki hentað. Það leit út fyrir að 5-6 leikmenn myndu eiga erfitt með að æfa út af þessu næsta vetur og ætluðu þær ýmist að hætta í körfu eða skipta yfir í önnur lið. Þá hefði Ármanns liðið verið orðið það fámennt að það hefði verið erfitt að halda úti liði. Við ákváðum því að reyna að halda hópinn frekar en að dreifa okkur í önnur lið. Við höfðum svo samband við Gunna í Stjörnunni og í framhaldinu samþykkti stjórn Stjörnunar að fá okkur yfir til sín,“ sagði Bryndís Gunnlaugsdóttir leikmaður kvennaliðs Stjörnunnar.

,,Stjarnan tók mjög vel á móti okkur. Fyrsta æfingin okkar var í gær í Ásgarði og heppnaðist mjög vel, það var góð mæting og öll aðstaða og umgjörð til fyrirmyndar. Við erum allar mjög spenntar fyrir vetrinum og ætlum að standa okkur vel í bláa litnum og að sjálfsögðu tryggja það að Stjörnumenn sjái ekki eftir því að hafa tekið á móti 14 munaðarlausum leikmönnum og þjálfara. Svo er auðvita alltaf pláss fyrir nýja leikmenn,“ sagði Bryndís kát í bragði.

nonni@karfan.is og www.stjarnan.is