17:15
{mosimage}

Snæfell hefur með einum og öðrum hætti verið viðloðandi dagskrá danskra daga síðustu ár og ætlar að taka mikinn þátt þessa helgina. Nú fer að styttast í mót og undirbúningstímabilið farið að rúlla mjög vel hjá bæði meistaraflokkum karla og kvenna undir öruggri stjórn Inga Þórs Steinþórssonar.

Til þess að koma við dagskrá danskra daga verða hinir ýmsu liðir í boði undir handleiðslu liðsmanna og stjórnar körfuknattleiksdeilda Snæfells. Þetta er gert í fjáröflunarskyni og heldur ekki síður til að vekja athygli á okkar góða íþróttafélagi sem verður í fremstu röð í efstu deildum karla og kvenna í körfuboltanum í vetur.

Stúlkurnar okkar verða með hina árlegu sölu á Dönsku daga merkjum hér í bæ og verða þær svo á vaktinni við bæjarhliðið. Stúlkurnar verða svo með göngu á Drápuhlíð, á laugardagsmorgni með leiðsögumanninn Hörð Karlsson fremstann. Á laugardag kl 11:00 verður svo ratleikur fjölskyldunar undir styrkri stjórn Gunnars Svanlaugssonar og mikið fjör þar. Heilmikill sölubás verður fyrir utan gamla pósthúsið  þar sem boðið verður uppá merkta bolla, glös, gos og sælgæti ásamt fullt af öðrum varningi til styrktar Snæfells og verður hann opinn alla helgina. Steinsnar frá sölugámnum á Aðalgötunni verða ýmsir körfuboltaleikir í boði fyrir gesti.

Happadrætti Snæfells er eitthvað sem rótgrónir Hólmarar, Snæfellingar og aðrir gestir geta varla látið fram hjá sér fara og eru veglegir vinningar í boði. Svo er það rúsínan í pylsuendanum. Eftir flugeldasýningu á bryggjunni verður ball sem Snæfell hefur fengið leyfi til að halda og er þannig framkvæmt að eftir að bryggjan hefur verið rýmd, þegar stórkostlegri flugeldasýningu er lokið, þá munu Matti og Draugabanarnir hefja leika að nýju þar sem Snæfell mun selja miða inn á bryggjuna og dúndurgóður dansleikur haldinn fyrir alla. Við óskum eftir skilningi og smá þolinmæði við þessa ballframkvæmd svo við getum öll haft góða skemmtun frameftir og allt gangi hnökralaust fyrir sig.

Við vonum að sem flestir kíki á okkar fólk um helgina leggji okkur lið og taki þátt í því gríðalega mikilvæga starfi og lífi sem Snæfell gefur okkur hér í bæ, jafnt heimamenn sem aðrir gestir. Gleðilega Danska daga.

Símon B. Hjaltalín