8:01

{mosimage}

Tindastólsmenn hafa nú lagt síðasta púslið í leikmannahóp sinn fyrir veturinn. Í gær sömdu þeir við leikstjórnandann Michael Giovacchini en sá kappi er Bandaríkjamaður með ítalskt vegabréf. Þetta kemur fram á heimasíðu Tindastóls.

Michael þessi kemur úr Ivy deildarskólanum Dartmouth sem leikur í NCAA I deildinni og útskrifaðist þaðan 2008 en lék ekkert í fyrra.

Kappinn er 181 cm og er af mikill körfuboltafjölskyldu kominn en afi hans, pabbi, frændi og tveir bræður hafa allir leikið sem leikstjórnendur og er elsti bróðirinn að spila í efstu deild á Ítalíu.

Í stuttu spjalli karfan.is við Michael sagði hann að eftir því sem hann hefði heyrt þá hefði íslenska deildin gott orðspor, að Ísland væri dásamlegt og fólk mjög vingjarnlegt.

Aðspurður sagði hann að eigin styrkleiki lægi í að leika fyrir liðið, vera hluti af liðsheild en hann gæti leikið bæði hratt og hægt, eftir því hvernig þjálfarinn setur leikinn upp.

Á heimasíðu Tindastóls segir Karl Jónsson þjálfari liðisins, „Þetta er góður kostur fyrir okkur tel ég. Bakgrunnur hans er þannig og sú staðreynd að hann gekk í sterkan akademískan skóla segir ýmislegt um hausinn á honum. Það sem ég hef séð til hans sýnir að hann er skynsamur leikmaður og tekur góðar ákvarðanir og það er þannig leikmaður sem við þurfum til að leiða liðið okkar í vetur. Við erum nú búnir að fylla leikmannahóp okkar og það er gott að vita svona snemma hvað maður hefur nákvæmlega í höndunum. Við reyndum að fá íslenska leikmenn í þessa stöðu sem Michael kemur í en náðum því ekki og því neyddumst við til að fá erlendan leikmann til að fylla hana.“

runar@karfan.is

Mynd: www.dartmouthsports.com