15:30
{mosimage}

(Rambis að frákasta fyrir Lakers í þá gömlu góðu)

Í gær greindum við frá því að Kurt Rambis myndi hugsanlega taka við Minnesota Timberwolves og hefur það orðið ofan á samkvæmt fréttasíðum í Bandaríkjunum. Rambis hefur verið aðstoðarmaður hjá Lakers síðasta áratuginn og hefur nokkrum sinnum tekið við stjórnartaumunum af Jackson hjá Lakers þegar svo hefur borið undir. Rambis varð fjórum sinnum meistari með Lakers sem leikmaður og eflaust eru margir í Minnesota sem vildu fá þennan sigursæla leikmanna og aðstoðarþjálfara í klúbbinn sem hefur séð mun fleiri tapleiki en sigurleiki.

Minnesota hafa ekki enn komist í úrslitakeppnina síðan Kevin Garnett leiddi þá í úrslit Vesturstrandarinnar árið 2004. Félagið hefur aðeins unnið 46 leiki á síðustu tveimur leiktímabilum og á síðustu fimm árum hefur liðið haft fjóra þjálfara.

Phil Jackson sagði af þessu tilefni að Rambis hefði verið vinnuhesturinn í þjálfarateymi Lakers og mætt ávallt manna fyrstur og farið síðastur til þess að huga að yngri leikmönnum félagsins. Þá sagði Jackson ennfremur að Rambis hefði skipulagt varnarleik Lakers á síðasta tímabili og ætti því risavaxinn þátt í meistaratitli félagsins.

,,Við munum sakna hans en nú er hans tími kominn til að gera það sem honum var ávallt ætlað að gera," sagði Jackson.

nonni@karfan.is