13:00

{mosimage}
(Pavel var áberandi í leik Íslands í gær)

Leikstjórnandi íslenska liðsins átti skínandi leik gegn Hollandi í gær en Pavel Ermolinskij daðraði við þrennuna frægu. Þessi 22 ára gamli strákur var með 7 stig, 10 stoðsendingar og 8 fráköst. Íslendingar þekkja kannski ekki nægilega vel til körfuboltahæfileika Pavels en hann hefur spilað erlendis sem atvinnumaður undanfarin ár. En hann sýndi það í gær af hverju þessi tveggja metra leikstjórnandi er í byrjunarliði Sigurðar Ingimundarsonar.


,,Þetta var frábær fyrsti hálfleikur eins og allir sáu, en hann gefur ekki alveg raunhæfa mynd af muninum á liðunum. Við erum ekki það betri að við eigum að vera 30 stigum yfir í hálfleik,” sagði Pavel og bætti við. ,,Við vorum svolítið kærulausir síðan í seinni hálfleik, kannski eðlilega, en það erftitt að koma í leikinn og vera 30 stigum yfir og vera jafn mótiveraðir og venjulega. En eftir slaka byrjun í seinni hálfleik róuðum við þetta og kláruðum sterkt.”

 

Varstu orðin stressaður þegar Hollendingar minnkuðu muninn? ,,Ég var ekkert stressaður, við vissum að þeir yrðu dýrvitlausir í seinni hálfeik og við bjuggumst við þessu en það voru okkar mistök að gera ekki það sama. Við höfðum þó alltaf þetta þægilega forskot og við örvæntuðum aldrei og kláruðum þetta sterkt.”

Af hverju var liðið svona tilbúið í þessum leik? ,,Við erum fullir sjálfstrausts eftir sigurinn á Dönum. Um leið og við byrjuðum að setja skotin ofaní fórum við að trúa á þetta. Við spiluðum betri vörn og það er okkar leikur að hlaupa og skjóta og þegar það gengur kemur sjálfstraust í okkur. Við vörum að berja frá okkur og verðum miklu stærri og sterkari en hinir.”

Nú er þetta allt önnur spilamennska en á Smáþjóðaleikunum. Hver er munurinn? ,,Við erum búnir að æfa miklu meira, við höfum verið á fullu í allt sumar og svo bætist við leikmaður eins og Jón Arnór inn í þetta. Hann er leikmaður sem okkur vantaði á Smáþjóðaleikana, leikmaður sem við getum gefið á og hann klárar færin. Svo bara trúum við meira á þetta núna heldur en á Smáþjóðaleikunum.”

Næsti leikur(Svartfjallaland). Hvernig líst á þér hann? ,,Við förum í hann með sama hugarfar og í hina leikina. En þetta er erfiður andstæðingur en við ætlum að berjast og leggja okkur fram eins og við höfum gert í hinum tveimur leikjunum og sjáum svo hvað gerist,” sagði Pavel að lokum.

Bryndís Gunnlaugsdóttir

mynd: stebbi@karfan.is