19:00
{mosimage}
(Jón Arnór átti frábæran fyrri hálfleik gegn Hollendingum)

Íslenska karlalandsliðið varði heiður Íslands og gerði það sem íslenska ríkisstjórnin þorir ekki að gera, að standa uppi í hárinu á Hollendingum.  Þrátt fyrir nokkra Hollendinga í Smáranum í dag bar Icesave málið ekki á góma, enda leikmenn og áhorfendur of uppteknir af því að flengja innistæðueigendur ESB.

Leikurinn hófst á gönguhraða í boði Hollands, en svo virtist sem þeir ætluðu að þvinga íslenska liðið í leiðindis göngubolta.  Það gekk framan af leik, allt þar til Jón Arnór setti í túrbógír með 13 stigum í röð.  Það ásamt sterkri vörn íslenska liðsins skilaði góðri forystu eftir fyrsta leikhlutann, 24-12.  Bakverðir hollenska liðsins litu illa út gegn góðum bakvörðum Íslendinga bæði í sókn og vörn.

Annar leikhlutinn hófst þar sem sá annar skildi við, Íslendingar héldu uppteknum hætti og gáfu Hollendingum aldrei færi á að komast inn í leikinn.  Það skipti engu hvaða íslenski leikmaður mætti til leiks, sóknarleikurinn var skynsamur og árangursríkur og skotnýting íslenska liðsins var til fyrirmyndar.  Hollensku bakverðirnir höfðu ekkert í Pavel, Jón Arnór og Loga að gera og gekk illa að halda þeim fyrir framan sig, en það skilaði sér í mörgum opnum skotum utan af velli þegar sótt var að körfunni.  Þetta skilaði sér í 28 stiga forystu í hálfleik, 59-31.

{mosimage}

Það var allt annað íslenskt lið sem mætti til leiks í seinni hálfleik, en ljóst var að Hollendingar höfðu nýtt hálfleikinn vel til að ráða ráðum sínum og stoppa í götin í vörninni.  Hollenska liðið hóf seinni hálfleikinn með sterku áhlaupi og höfðu Íslendingar engin ráð við sterkum varnarleik þeirra Hollensku og góðum sóknarleik.  Sóknarleikur íslenska liðsins var í besta falli vandræðalegur framan af þriðja leikhluta og munaði þar miklu um að Nelson lokaði á Pál Axel, en Páli tókst varla að koma af skoti framan af þriðja leikhluta.  Á sama tíma gekk illa að setja upp kerfin og finna leiðir til að stoppa í götin.  Það hófst þó hægt og hljótt, en þó ekki fyrr en Hollendingar höfðu minnkað muninn verulega.  Hinn glæsti 28 stiga hálfleiksmunur var kominn í 11 stig og leikurinn galopinn.

Ef einhverntíma hefur verið bitið í skjaldarrendur, þá var það núna.  Íslensku strákarnir náðu áttum milli leikhluta og komu geypisterkir til leiks í þeim fjórða.  Helgi opnaði leikhlutann á mikilvægum þrist og Logi setti langan tvist stuttu seinna og kom forystunni upp í 16 stig.  Hollendingar svöruðu fyrir sig og Íslendingar svöruðu fyrir það, þannig gekk fjórði leikhlutinn að mestu þar til yfir lauk.  Það sem vakti þó mesta hrifningu áhorfenda var hvernig íslenska liðið tókst á við áhlaup andstæðinganna og kláraði leikinn sterkt, eitthvað sem er jafn sjaldséð og íslensk króna í útlöndum.  Lokatölur 87-75 og virkilega góður tólf stiga sigur staðreynd.

{mosimage}

Íslenska liðið lék líklegast sinn besta fyrri hálfleik frá upphafi og náði þar 28 stiga forystu gegn góðu hollensku liði.  Allir leikmenn liðsins komust vel frá sínu, en ljóst er að liðsins bíður erfiðara verkefni gegn Svartfjallalandi á miðvikudag.

Snorri Örn

Myndir: Stefán Þ. Borgþórsson