20:05
{mosimage}

(Magnús Þór Gunnarsson)

Magnús Þór Gunnarsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu sem mætir Dönum á morgun í fyrsta leik íslenska liðsins í síðari hluta B-deildar Evrópukeppninnar. Magnús sagði leikmenn liðsins spennta fyrir verkefninu enda langt liðið frá síðustu Evrópuleikjum og að nú ætlaði íslenska liðið að rokka upp leik sinn og gera smá læti.

,,Það er aldrei nein ást í þessum leikjum enda á það heldur ekkert að vera þannig. Leikurinn leggst vel í okkur, bara mjög vel,“ sagði Magnús Þór Gunnarsson í samtali við Karfan.is. ,,Þetta hafa oftast verið hörku leikir hjá okkur og oftar en ekki hafa Danir sigið fram úr á lokamínútunum því þá hafa kannski stóru leikmennirnir okkar farið út af með fimm villur. Núna breytist þetta og við ætlum að rokka þetta aðeins upp, pressa þá allan völlinn og gera læti,“ sagði Magnús og bætti við að í gegnum árin hefðu Danir reynt að nýta sér hæðina gegn Íslendingum.

,,Samkvæmt okkar heimildum eru þeir með eitthvað minna lið núna alveg eins og við þannig að við eigum góða möguleika á móti þeim,“ sagði Magnús og býst því ekki við að Danir muni leggja jafn mikla áherslu og áður á sóknarleikinn í teignum. ,,Nú er þetta eitthvað minna hjá þeim og þá reyna þeir örugglega að spila hraðann bolta eins og við,“ sagði Magnús sem hefur góða tilfinningu fyrir leiknum.

,,Það er bara hamingja að fara út og spila landsleik, við höfum ekki gert það núna í heilt ár og hópurinn er mjög góður og það er fjör framundan hjá okkur því það hafa allir afskrifað okkur nema þessir 13 sem skipa liðið,“ sagði Magnús og kvaðst lítið muna eftir Smáþjóðaleikunum þegar blaðamaður benti á dræmt gengi íslenska liðsins fyrr í sumar.

,,Smáþjóðaleikarnir eru löngu búnir og nú ætlum við bara að fara og vinna þessa leiki sem við eigum séns í að vinna og það eru allir búnir að gleyma þeim, nema kannski þið,“ sagði Magnús léttur í bragði og átti þá við fjölmiðla.

nonni@karfan.is