19:10
{mosimage}

(Logi átti fínar rispur í íslenska liðinu í dag)

,,Við ætluðum að mæta brjálaðir í þennan leik og taka þrjá af þessum fjórum leikjum sem við spiluðum. Það var takmarkið en þegar maður byrjar á hælunum á móti góðu liði eins og Austurríki þá erum við alltaf að elta. Þó maður jafni svona lið þá er maður alltaf að eyða meiri krafti en þeir og þeir náðu bara alltaf að vera aðeins á undan okkur og það var bara útaf lélegri byrjun hjá okkur,“ sagði Logi Gunnarsson stigahæsti leikmaður Íslands í dag en hann gerði 17 stig og gaf 2 stoðsendingar í leiknum.

Er Ísland með það sterkt lið að það á að geta sett markið hærra en að lenda í næst neðsta sæti riðilsins?
,,Jú jú, ef við hefðum unnið þennan leik hefðum við endað ofar. Ef við spilum eins og við eigum að gera, eins og á móti Hollandi, þá eigum við að vinna þetta lið. Til þess að vinna þessar þjóðir sem eru alltaf stærri en við þá þurfum við að berjast eins og ljón en ef við gerum það ekki þá eigum við ekki séns,“ sagði Logi en það vakti athygli í dag hversu dræm skotnýting íslenska liðsins var. Sem dæmi má nefna að Ísland hitti aðeins úr 6 af 29 þriggja stiga tilraunum sínum í dag.

,,Venjulega er það aðalstyrkleiki okkar að hitta vel og við erum ekki vanir að brenna illa af en í kvöld hittum við ekki. Við hittum samt aðeins í endann en það dugði ekki til,“ sagði Logi sem reyndar hitti úr öllum 7 tveggja stiga tilraunum sínum í dag en hitti aðeins úr 1 af 5 þriggja stiga skotum sínum.

nonni@karfan.is