12:00

{mosimage}

Helena Brynja Hólm sem leikið hefur með Haukum undanfarin ár hefur söðlað um og mun leika með SISU Cph í dönsku Dameligan í vetur. Nú á dögunum tók hún þátt í Streetballmóti með liðinu og náðu þær eftirtektarverðum árangri en úrslit mótsins fóru fram á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn.

Við heyrðum í Helenu og báðum hana að segja okkur frá mótinu.
„Ég var að keppa í Streetballmóti sem samtökin Gam3 halda hérna í Kaupmannahöfn, þetta mót er líka haldið í öðrum löndum. Spilað var í öllum aldursflokkum á nokkrum völlum hérna í Kaupmannahöfn. Ég og nokkrar stelpur í liðinu sem ég spila með núna skráðum okkur en verðlaunin fyrir fyrsta sæti voru 15.000 danskar( sem eru 360.000kr.íslenskar) ásamt fullt af aukavinningum.

Við unnum alla leikina í riðlinum okkar og komumst í úrslitin sem voru spiluð á Rådhuspladsen fyrir framan fullt af áhorfendum og þar var þvílík stemming. Við vorum yfir allan leikinn en misstum tökin í endann og töpuðum með 4 stigum sem var frekar sárt. Þetta var samt mjög gaman og veðrið var rosalega gott allan daginn.”

En hvað ertu að gera í Danmörku?
„Ég er að spila með SISU Cph en þær urðu deildarmeistara í fyrra og töpuðu svo í undanúrslitum og enduðu svo í þriðja sæti. Í ár er liðið frekar breytt en nokkrar er hættar síðan í fyrra og nýjar komnar og einnig er nýr þjálfari. Núna er undirbúningstímabilið hjá okkur á fullu, og næstu 4 helgar eru æfingarmót annaðhvort í Danmörku eða Svíþjóð og svo er fyrsti deildarleikurinn spilaður 27. September.

Fyrir utan körfuna þá er ég að klára síðasta árið mitt í Verzlunarskóla Íslands í fjarnámi hérna úti og er einnig að fara í dönskuskóla. Ég var að vinna í Kaupmannahöfn í sumar en síðan flutti fjölskylda mín út þannig ég ákvað að verða eftir og koma ekki strax heim. Kannski kem ég heim um jólin og klára þá tímabilið með íslensku liði eða verð hér allt tímabilið en mér líkar mjög vel hérna úti.”