12:00
{mosimage}

(Frá vinstri: Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Henning Henningsson þjálfari kvennalandsliðs Íslands)

Landsliðsþjálfarinn Henning Henningsson fékk eldskírn sína sem aðalþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru á Kýpur fyrr á þessu ári. Nú er hann kominn með liðið á fullt í síðari helming riðlakeppninnar í B-deild Evrópukeppninnar og mætir liðið Sviss í dag kl. 16:00. Leikurinn fer fram í Sviss og þá hefst metnaðarfull vinna landsliðsins við að ná settu marki sem er þrír sigurleikir í þessum síðari hluta keppninnar.

,,Ég tel markmiðið okkar, að vinna þrjá leiki í þessum hluta, vera fyllilega raunhæft. Þetta er alls ekki neitt sápukúlumarkmið hjá okkur heldur raunhæft markmið sem við eigum að geta náð,“ sagði Henning en mun það duga til að komast upp úr riðlinum?

,,Nei, það er mjög ólíklegt og ég er nánast viss um að það muni ekki duga enda unnum við bara einn leik í fyrra. Það myndi samt setja okkur í fjóra sigurleiki í 10 leikjum sem kemur okkur hugsanlega upp í 3.-4. sæti sem er náttúrulega bara ágætt eins og staðan er í dag,“ sagði Henning sem rennir nokkuð blint í sjóinn gegn Sviss enda var hann ekki þjálfari liðsins þegar liðin mættust hér á Íslandi fyrir ári síðan.

,,Ég átta mig ekki á því hvort Sviss hafi verið með sitt sterkasta lið þegar þær komu hingað en ég hef engu að síður skoðað þann leik mjög vel og liðin eru tiltölulega á þekk og munurinn á liðunum er hugsanlega Helena Sverrisdóttir. Hún er náttúrulega að þróast í það að verða einn af allra bestu leikmönnum Evrópu og hugsanlega víðar,“ sagði Henning og gerir sér fulla grein fyrir því að Helena mun ekki fá neina snyrtimeðferð hjá andstæðingum sínum.

,,Hún Helena fékk svo sem að finna fyrir hlutunum á Smáþjóðaleikunum, hún var beitt allskonar fantabrögðum og öðru slíku sem á ekki að sjást á körfuboltavelli. Dagskipunin var oft þannig hjá andstæðingunum að gera Helenu lífið leitt en hún er bara það heilsteyptur íþróttamaður og fókuseruð á það sem hún er að gera að þetta truflaði hana ekki neitt og hún spilaði mjög vel,“ sagði Henning og bætti við að það kæmi honum verulega á óvart ef Helena fengi í raun nokkurn frið í þessum fimm leikjum sem eftir eru.

Hildur Sigurðardóttir er komin aftur inn í landsliðshópinn og fagnar Henning því en hann kveðst jafnframt geta telft fram enn sterkari bakvarðasveit. ,,Ef ég hefði Pálínu Gunnlaugsdóttur með í hópnum þá væri ég með lið sem að ég myndi telja að væri algerlega rjóminn af leikmönnum deildarinnar,“ sagði Henning en Pálína verður fjarvernadi körfuboltaiðkun næstu mánuðina sökum barneigna.

Sviss-Ísland
Kl. 16:00 í dag.

Bein tölfræðilýsing:

http://www.eurobasketwomen2009.com/en/cid_X6FnqP4DGbURoW6MX7dzD2.pageID_fBzdXFOEJU-UWMEdXaZC-3.compID_pnlxO1HYJhUh,MTfrmUO03.season_2009.html

Texti: nonni@karfan.is
Mynd: stebbi@karfan.is