22:54
{mosimage}

(Henning Henningsson)

,,Sigurviljinn kom hjá okkur, það var eiginlega bara það sem gerðist,“ sagði Henning Henningsson landsliðsþjálfari í samtali við Karfan.is eftir frækinn 77-68 sigur Íslands á Írum í Evrópukeppni kvenna.

,,Við höfum átt góða kafla í hinum leikjunum en það hefur alltaf dottið inn á milli einhver skítalykt en það gerðist ekki núna og við náðum að halda haus allan tímann og við vorum að vinna virkilega gott lið,“ sagði Henning og var sáttur við hörkuna í íslenska liðinu.

,,Það var farið vel yfir þessa hluti og þeir mikið ræddir og við ætluðum ekki að láta ýta okkur út úr stöðunum eins og t.d. í leiknum gegn Hollandi. Í þessum leik og þeim síðasta í Slóveníu tókst okkur að bæta þennan þátt og því gekk þetta miklu betur,“ sagði Henning en allt annað var að sjá til Íslands í kvöld en í leiknum gegn Hollandi. Íslensku leikmennirnir börðust af krafti og stjórnuðu hraðanum í leiknum.

,,Í raun lögðum við áhersluna á að keyra upp hraðann og fá boltann mikið upp kantinn. Við vorum að erfiða mikið mikið með boltann upp völlinn í síðustu leikjum sem gerir það að verkum að leikmenn eins og Helena verða fyrr þreyttar. Þessvegna ákváðum við að reyna að gefa boltann meira og auka hraðann,“ sagði Henning og hafði þessu við að bæta í lokin.

,,Við ætlum að vinna á laugardag, það er bara svoleiðis!“

nonni@karfan.is