00:35

{mosimage}
(Norel er einn efnilegasti leikmaður Hollendinga)

Miðherji Hollendinga Henk Norel var með átta stig í leik Íslands og Hollands fyrr í kvöld. Norel sem var valinn af Minnesota Timberwolves í NBA valinu nú í sumar með 47. valréttinum sagði liðsfélaga sína hafa verið þreytta og orkulausa á meðan íslenska liðið hafi verið á útopnu.

Norel gat ekki útskýrt hvað fór úrskeiðis þegar hann var inntur eftir svari eftir leik. ,,Ég hreinlega veit það ekki. Við vorum orkulausir og gerðum alltof mörg mistök í vörninni og á meðan voru þeir sjóðandi heitir og settu öll skot. Einnig voru þeir að frákasta vel og gerðu þetta okkur afar erfitt,” sagð Norel en hann vildi ekki viðurkenna að þeir appelsínugulu hafi vanmetið íslenska liðið. ,,Get nú ekki sagt það en við vorum þreyttir á meðan þeir voru einbeittir og beittir í öllum aðgerðum.”

Hollendingar náðu góðu áhlaupi í seinni hálfleik en munurinn sem Ísland hafði í hálfleik var aðeins of mikill. ,,Við gerðum okkar besta og minnkuðum muninn í 12 stig en við byrjuðum illa og það varð okkur að falli. Við megum ekki byrja svona illa því þá er verkefnið óvinnandi,” sagði Norel og bætti við. ,,Nú verðum við að einbeita okkur að næsta leik.”

Bryndís Gunnlaugsdóttir

mynd: stebbi@karfan.is