10:14
{mosimage}

(Helena Sverrisdóttir)

Holland keyrði yfir íslenska kvennalandsliðið í gær og vann góðan 52-70 útisigur að Ásvöllum Íslenska liðið náði að stríða því hollenska í fyrri hálfleik en í þeim síðari voru gestirnir allsráðandi. Helena Sverrisdóttir fór fyrir íslenska liðinu með 19 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar.

,,Mér fannst við spila ágætlega í fyrri hálfleik en við gerðum rosaleg mistök og við vorum með allt of marga tapaða bolta í fyrri hálfleik en mér fannst við samt vera inni í leiknum. Þegar svo komið er inn í seinni hálfleik þá vorum við bara kraftlausar og það var eins og við hefðum ekki trú á verkefninu,“ sagði Helena dauf í bragði eftir 18 stig skellinn að Ásvöllum.

,,Því miður voru skotin okkar ekki að detta og þannig misstum við svolítið trúnna á þessu og Hollendingar keyrðu hraðann upp og við það hættum við eiginlega bara að spila og það er mjög leiðinlegt. Svona er þetta bara,“ sagði Helena en hvernig mun íslenska liðið líta á framhald keppninnar hjá sér?

,,Við höfum engu að tapa og vitum að við erum kannski ekki besta lið í heimi en það sem við getum gert er að koma með þvílíka baráttu allan tímann og það vorum við bara ekki að gera í dag. Það eru þrír mjög erfiðir leikir eftir og mér finnst Holland með eitt af bestu liðunum í riðlinum og staðan hér að Ásvöllum gefur ekki rétta mynd af þessu fyrir okkur en við bara hugsum okkar gang og komum brjálaðar í næsta leik,“ sagði Helena en næsta viðureign Íslands er gegn Slóveníu ytra laugardaginn 22. ágúst næstkomandi.

nonni@karfan.is