10:44
{mosimage}

(Helena Sverrisdóttir)

Þrátt fyrir bága stöðu íslenska kvennalandsliðsins í B-deild Evrópukeppninnar hefur Helena Sverrisdóttir látið vel til sín taka. Helena leiðir alla helstu tölfræðilista B-keppninnar en Ísland situr engu að síður í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins með einn sigurleik. Sigurinn kom gegn Sviss í fyrri hluta keppninnar á síðasta ári en Ísland leikur einmitt gegn Sviss næsta laugardag þar sem mikið mun mæða á Helenu. Landsliðið hefur sett sér það markmið að vinna þrjá leiki í þessum síðari hluta B-deildar Evrópukeppninnar og telur Helena það vera raunhæft markmið.

,,Að vinna þrjá leiki er eina raunhæfa markmiðið sem við getum sett okkur akkúrat núna. Við stóðum okkur ekki nægilega vel í fyrra til að setja okkur í þær aðstæður að komast upp úr riðlinum núna en við förum í alla leiki til að berjast og vinna en við sjáum bara hvað gerist,“ sagði Helena. Þó svo íslenska liðið hafi tapað fjórum leikjum og unnið aðeins einn í fyrri umferðinni voru nokkrir leikir ansi jafnir.

,,Það er ástæðan fyrir því að við ætlum okkur að vinna þrjá leiki núna, við erum einu ári eldri og með meiri reynslu núna. Við höfum ungt lið í bland við eldri leikmenn og getum alveg unnið þessi lið,“ sagði Helena ákveðin og telur það skipta miklu máli að hafa fengið Hildi Sigurðardóttur frá KR aftur inn í landsliðshópinn. Hildur gaf ekki kost á sér á Smáþjóðaleikana en er nú kominn á ný inn í landsliðið.

,,Það skiptir mjög miklu máli að fá Hildi aftur og það eykur líka samkeppnina á æfingunum sem er mikilvægt fyrir hóp eins og okkar sem spilar ekki mikið af æfingaleikjum fyrir svona stór verkefni eins og eru framundan,“ sagði Helena sem vakið hefur verðskuldaða athygli með skólaliði sínu TCU í Bandaríkjunum. Á hún von á því fyrir þær sakir að hún verði tekin föstum tökum í næstu leikjum?

,,Ég held að það fylgi því bara að þegar maður þroskast sem leikmaður þá verður spilað harðar á þig. Þá sést bara hversu góður maður er og þá verður maður að hafa eitthvað nýtt í pokahorninu á móti. Þetta er líka eitthvað sem maður verður bara að venjast,“ sagði Helena sem getur og þarf að bregða sér í allra kvikinda líki á vellinum og leika í stöðum 1-4 en það þekkir hún frá TCU.

,,Það er kannski bara kostur að geta leyst allar þessar stöður og gott fyrir mig og hugsanlega erfiðara fyrir andstæðinginn. Þetta er bara hluti af mínum leik að vera allstaðar á vellinum,“ sagði Helena sem var ekki há í loftinu þegar hún fór að stíga sín fyrstu landsliðsskref. Hefur hún orðið vör við miklar breytingar hjá kvennalandsliðinu síðan hún fór að eiga sæti í því?

,,Það er erfitt að koma úr prógramminu úti og koma hingað heim því maður finnur að það eru ekki til jafn miklir peningar hérna en það er svona fjölskyldustemmning í þessu. Allir eru að reyna að gera sitt besta í því að hjálpa og manni þykir ofboðslega vænt um það. Þetta er alltaf jafn gaman og mér fannst það skrýtið á æfingu um daginn þegar skipt var í lið, eldri á móti yngri, þá var ég í eldri hópnum. Ég ætlaði ekki að trúa því, mér finnst ég ennþá svo ung en við erum með ungt lið og mjög efnilegt og það er vonandi einn af þeim þáttum sem gerir Ísland að betri körfuboltaþjóð,“ sagði Helena sem verður í eldlínunni á laugardag þegar Ísland mætir Sviss á útivelli kl. 16:00 að íslenskum tíma.

Gera má fastlega ráð fyrir því að löndin sem Ísland mætir á næstu dögum taki vel á Helenu en hún leiðir alla helstu tölfræðilista keppninnar. Helena hefur gert flest stig í leik eða 34 gegn Svartfjallalandi, þá skoraði hún 23,6 stig að meðaltali í leik í fyrri hluta keppninnar (1. sæti), tók 9,0 fráköst (1.sæti), gaf 5,4 stoðsendingar (1. sæti) og varði 1,2 skot að meðaltali í leik (6. sæti) en þar á toppnum trónir engin önnur en Signý Hermannsdóttir með 2,3 varin skot að meðaltali í leik.

nonni@karfan.is

Mynd: stebbi@karfan.is