22:28

{mosimage}

Íslenska karlalandsliðið vann góðan sigur á Dönum í kvöld í fyrsta leik haustins í B deild Evrópukeppninnar, 66-54 í Álaborg fyrir framan 933 áhorfendur, þar af nokkra íslenska sem fjögnuð vel að leik loknum.

Íslendingar byrjuðu leikinn vel og hittu vel úr þriggja stiga skotum sínum og náðu þar ágætu forskoti sem var grunnurinn að sigrinum að lokum. Danir beittu agressívri vörn í lok fyrsta leikhluta og tóks að minnka muninn. Sama var upp á teningnum í öðrum leikhluta, Íslendingar byrjðu vel en Danir sigu á undir lok leikhlutans. Íslendinga leiddu með 7 stigum í hálfleik, 35-28. Íslendingar geta þakkað hittni í fyrri hálfleik og lélegri hittni Dana að þeir voru yfir í hálfleik því Danir áttu flest fráköst sem buðust.

Íslenska liðið lék ekki vel í þriðja leikhluta og var farið að fara um undirritaðan á tímabili því leikur íslenska liðsins var hálfráðvilltur, þó hafðist það að lokum að auka muninn í 8 stig áður en þriðja leikhluta lauk en á tíma var hann kominn niður í 2 stig.

Í fjórða leikhluta voru Danirnir að elta allan tímann en Íslendingum tókst að verjast og landa sigri, þeim fyrsta á danskri grundu síðan 1979 og aðeins þeim þriðja í sögunni.

Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur Íslendinga með 21 stig en næstur honum kom Logi Gunnarsson með 13 stig, Páll Axel Vilbergsson og Fannar Ólafsson skoruðu 10 stig hvor auk þess tók Páll Axel 7 fráköst og Fannar 5 en Pavel Ermolinskij tók 6 auk þess sem hann gaf 4 stoðsendingar.

Stigahæstur Dana var fyrrum Grindvíkingurinn Adama Darboe með 10 stig auk þess sem hann gaf 4 stoðsendignar, tók 5 fráköst og stal 3 boltum. Næstur honum kom Nicolai Iversen með 9 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar.

Í hinum leik kvöldsins í A riðli sigruðu Hollendingar Austurríkismenn á heimavelli 83-60 og eru Hollendingar í nokkuð góðum málum í öðru sæti riðilsins. Þeir koma hins vegar í heimsókn til Íslands á laugardag og takist íslenska liðinu að sigra þá hafa þeir sett stöðu riðilsins í uppnám og möguleikar Íslands á öðru sætinu aukast.

runar@karfan.is

Mynd: stebbi@karfan.is