13:13
{mosimage}

(Gasol er lykilleikmaður í landsliði Spánar)

Pau Gasol, leikmaður NBA meistara Lakers og forsprakki Heimsmeistara Spánverja, fór nýverið í aðgerð á vísifingri sökum meiðsla sem hann hlaut á æfingu með landsliði Spánar en Spánverjar undirbúa sig nú af krafti fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Póllandi. Gert er ráð fyrir því að Gasol verði frá boltaiðkun næstu þrjár vikurnar.

Körfuknattleikssamband Spánar greindi frá því að meiðsli Gasol væru í fingri á hendi sem ekki væri skothönd leikmannsins. Sambandið sagði þó ekki hvort Gasol yrði með liðinu í Póllandi eður ei. Sjálfur hefur Gasol sagt að hann ætli sér að vera með í Evrópukeppninni og sér enga ástæðu til að gefa eftir sæti sitt í landsliði Spánar þrátt fyrir meiðslin.

Þá hefur Gasol einnig rætt við sína yfirboðara hjá Lakers og á von á svari frá félaginu um hvort hann fái samþykki til að leika landsleikina en fyrst vilja meistararnir ganga úr skugga um, með sínum eigin lækni, að allt sé með felldu hjá gullkálfinum sínum frá Spáni.

nonni@karfan.is