8:30

{mosimage}

Jón Arnór Stefánsson og Nicolai Iversen eigast við í Laugardalshöllinni í fyrra

Eins og fram hefur komið heimsækir A landslið karla það danska heim í Álaborg í dag kl 19:15 að dönskum tíma, 17:15 að íslenskum. Danska liðið er þónokkuð breytt frá fyrri árum og tala þeir um að leikurinn í dag sé eini möguleiki þeirra um sigur í leikjum haustsins.

Danska liðið er sem fyrr segir mikið breytt frá fyrri árum, nú vantar risann Chris Christofferson og einnig Peter Johansen en þessir tveir hafa oft valdið Íslendingum vandræðum. Þá vantar einngi leikstjórnandann Chanan Colman.

Leikur danska liðsins byggist því að mestu upp á þremur leikstjórnendum, Adama Darboe, Andreas Jakobsen og Fredrik Nielsen og framherjanum Nicolai Iversen. Margir ungir leikmenn eru í liðinu og því ekki mikil reynsla. Þá varð liðið fyrir áfalli tveimur dögum fyrir fyrsta leikinn í haust, sem var gegn Austurríki síðasta laugardag. Alan Voskuil sem hafði æft með liðinu í allt sumar og átti að gegna stóru hlutverki varð að fara til liðs síns, Alta Gestion Fuenlabrada Madrid sem leikur í efstu deild á Spáni. Voskuil er nýbúinn að semja við liðið og krafðist liðið þess að fá hann til sín. Þess má geta að Voskuil er hálfamerískur og binda Danir miklar vonir við hann.

Danir léku tvo æfingaleiki í sumar, báða í Eistlandi gegn heimamönnum. Fyrri leikinn unnu Eistar 73-43 og þann seinni 63-59 eftir æsispennandi lokamínútur. Danir heimsóttu svo Austurríkismenn síðasliðinn laugardag og tapaði 92-61 þar sem Nicolai Iversen og  hinn ungi Mads Bloch Frandsen voru  stigahæstir Dana með 12 stig hvor.

Danir hafa sagt á flestum vefsíðum að eini möguleikinn á sigri í haust sé í kvöld gegn Íslandi. Leikurinn fer fram í Aalborg stadionhal og er pláss fyrir 2000 manns, danskir skipuleggjendur reikna með 1000 manns en vonast eftir fleirum. Þegar Ísland heimsótti Dani í Árósum 2005 voru um 100 Íslendingar á leiknum, í kvöld þurfa að mæta fleiri og hvetja Ísland til sigurs. Verð á leikinn er 70 dkr fyrir fullorðna og 30 dkr fyrir börn.

Danska stöðin DK4 sýnir leikinn beint, á heimasíðu þeirra er hægt að horfa á flest sem þeir sýna gegn 39 dkr.

Þá verður hægt að fylgjast með tölfræðinn á heimasíðu FIBAEurope

runar@karfan.is

Mynd: stebbi@karfan.is