21:09
{mosimage}

(Helena Sverrisdóttir var fjarri því sátt við leik íslenska liðsins í kvöld)

Hollendingar gáfu Íslendingum kannski smá innsýn í það hversu sveigjanlegir þeir ætli sér að vera í Icesave deilunni þegar kvennalandslið þjóðanna mættust í körfuknattleik að Ásvöllum í kvöld. Hollendingar fóru með 52-70 sigur af hólmi og gerðu svo með þéttum varnarleik og færðu Íslandi sinn annan ósigur í röð í síðari hluta B-deildar Evrópukeppninnar. Eftir leiki kvöldsins eru Ísland og Sviss enn á botni riðilsins með 8 stig og markmið íslenska liðsins um þrjá sigurleiki í síðari hluta keppninnar orðið ansi fjarlægt um þessar mundir. Helena Sverrisdóttir fór fyrir daufum hópi Íslands með 19 stig, 12 fráköst, 8 stoðsendingar og 7 tapaða bolta.

Leikar hófust með rólegara móti, gestirnir gerðu fyrstu körfu leiksins en Helena Sverrisdóttir jafnaði fyrir Ísland strax í næstu sókn. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta var staðan aðeins 6-6 og Helena sú eina með lífsmarki í íslenska liðinu. Hollendingar voru grimmir á að sækja og þegar skammt var til loka fyrsta leikhluta stálu gestirnir boltanum og gerðu flautukörfu og breyttu stöðunni í 14-16 og þannig stóð eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Hildur Sigurðardóttir opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og kom Íslandi í 17-16 en Hollendingar hertu þá róðurinn með stífri vörn og komust í 21-29. Hollendingar voru ófeimnir við að fá villur og lömdu vel á íslenska liðinu. Þegar þrjár og hálf mínúta voru til hálfleiks gerðist einn leikmaður Hollands sekur um brot á sóknarleikmanni Íslands en til að bæta gráu ofan á svart gretti hollenski leikmaðurinn sig aftan í dómarann sem dæmdi á sig villuna. Dæmt er í þriggja dómara kerfi í Evrópukeppninni og fékk hollennski leikmaðurinn tæknivillu dæmda á sig fyrir vikið þar sem hinir tveir dómararnir sáu atvikið og höfðu lítt gaman af. Ísland fékk því fjögur vítaskot og minnkaði muninn í 25-31.

Hollendingar slitu sig að nýju frá Íslandi og komust í 27-40 en það var þriggja stiga flautukarfa Helenu Sverrisdóttur sem minnkaði muninn í 30-40 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

{mosimage}
(Sigrún Ámundadóttir gerði 4 stig á þeim 11 mínútum sem hún lék í leiknum)

Síðari hálfleikur var jafn lengi í gang og sá fyrri. Liðunum gekk lítið að skora og eftir tæplega sex mínútna leik höfðu liðin gert sín hvor fjögur stigin og staðan 34-44 Hollandi í vil. Ekki leið á löngu uns Hollendingar tóku rispu og komust í 36-50. Leikur íslenska liðsins var með slakasta móti og hræðsla við að sækja að körfunni í bland við háskalegar sendingar tryggðu Hollendingum 21 stiga forskot fyrir fjórða og síðasta leikhluta, 38-59.

Hollendingar sátu fast við sinn keip í fjórða leikhluta og hleyptu Íslandi aldrei nærri sér og höfðu að lokum öruggan sigur 52-70.

{mosimage}
(Birna Valgarðsdóttir fiskaði 4 villur á hollensku vörnina í kvöld og gerði 5 stig og tók 4 fráköst)

Stigaskor íslenska liðsins:

Helena Sverrisdóttir: 19 stig, 12 fráköst, 8 stoðsendingar, 7 tapaðir
Hildur Sigurðardóttir: 10
Signý Hermannsdóttir: 9 stig og 5 fráköst
Birna Valgarðsdóttir: 5 stig
Sigrún Ámundadóttir: 4 stig
María Ben Erlingsdóttir: 4 stig
Hafrún Hálfdánardóttir: 1 stig

nonni@karfan.is