11:38
{mosimage}

Það er orðið stutt í annan endan á sumrinu og hjá körfuboltafólki er sumarið nánast búið. Æfingar fara á mikið flug hjá flestum félögum strax eftir verslunarmannahelgi. Sjálfur var maður í bænum um verslunarmannahelgina enda líður mér alltaf best í borginni. Er engu að síður stoltur af að hafa farið tvívegis út fyrir Rauðavatn í sumar en ég fór bæði í veiði og í sumarbústað. Frétti það að Unglingalandsmótið hafi verið flott og mikið fjör hafi verið á Króknum. Þessi mót eru algjör snilld enda hefur áhugi  fólks aukist á þessum mótum. Svo hef ég líka lúmskt gaman af því hvað sum félög taka þetta mót alvarlega á meðan önnur líta á Unglingalandsmót sem algjört æfingamót.

Þessir pistlar hafa færst út í það að vera hápólitískir enda getur maður ekki orða bundist yfir allri spillingunni sem hefur viðgengist hér á þessum blessaða klaka. Ég er svona að öllu jafna frekar rólegur en djöfull varð ég reiður um daginn þegar Skaupþing fékk lögbann á RUV á dögunum. Maður var fljótur að hlaupa út í næsta Skaupþingsbanka og tæma klinkið sem maður átti inni. Þeir voru reyndar fljótir að draga lögbannið til baka þegar þeir sáu mig mættan út í banka til að taka út. Fyrir utan einn og einn körfuboltadómara þá eru ekki margir sem ná að æsa mann svona en þarna tókst bankastjóra Skaupþings nokkuð vel upp.

{mosimage}
(Ingi og Benedikt við stjórnartaumana hjá KR á síðustu leiktíð)

Eins og hefur komið fram þá ákváðum ég og Ingi Þór Steinþórsson að gefa KR strákunum smá frí frá okkur og skiptum við báðir um vettvang. Við höfum þjálfað suma í meistaraflokknum ansi lengi í yngri flokkum sem og meistaraflokki. Ingi skellti sér í Hólminn og mun þjálfa bæði karla og kvennaliðið þar á meðan ég færði mig bara innanhúss og tók við kvennaliði KR. Maður hefur fengið allskyns viðbrögð við þeirri ákvörðun. Ég hlakka allavega mikið til að takast á við þá áskorun. Ég er svo sem alveg sammála mörgum að ég er kannski ekki alveg týpan í það að þjálfa stelpur. Margir hafa bent mér á að það þurfi öðruvísi sálfræði á þær en stráka og þær séu fljótar að snúast gegn þjálfaranum ef maður gerir eða segir eitthvað sem þeim mislíkar. Ég er pottþéttur á að ég mun læra helling af þessu verkefni og ég tel hópinn sem ég er með í höndunum í dag sterkan andlega og ríkan karakterslega. Það verður nóg að gera hjá Inga næsta vetur með báða meistaraflokkana og einhverja yngri flokka líka. Þeir í Hólminum vissu hvað þeir voru að gera þegar þeir náðu í Inga. Þetta er ekki bara sterk fagleg ráðning heldur einnig viðskiptaleg. Það má líkja þessu við þegar erlend knattspyrnulið eða NBA lið kaupa einn Kínverja til að hafa í hópnum hjá sér og selja síðan hundruðir milljóna treyja í Asíu og græða þvílíkt. Tilfellið er kannski ekki alveg það nákvæmlega sama með Inga en samkvæmt áreiðanlegum heimildum mínum (ÖÞK) þá er ráðning Inga styrkt af bænum og ekki af ástæðulausu. Þegar það spurðist út að til stæði að ráða Inga hafði bæjarstjórnin ekki undan að taka við lóðarumsóknum frá öllum helstu skyndibitakeðjum landsins. Tekjur bæjarfélagsins skipta því strax tugum milljóna og hugsanlega töluverðu meiru þegar fram líða stundir enda Ingi margfaldur skyndibitakóngur Íslands. Þarna eru staðir eins og KFC, Dominos, American Style og fleiri að mæta því tekjutapi sem verður á þessum stöðum í Reykjavík þegar Ingi flytur í Hólminn.


Ég talaði um það í síðasta pistli að ég vildi bæði fjölga leikjum og lengja tímabilið í báðum IE-deildunum. Ég er harður á því að leikmennirnir okkar þurfa að spila oftar og lengur yfir veturinn. Einu rökin, ef rök má kalla, sem ég hef heyrt gegn þessu að þá hækki kostnaður félaganna vegna launa erlendra leikmanna og hugsanlega einhverra íslenskra líka. Þá þarf að greiða dómurum fyrir að dæma fleiri leiki osfv. Ég vona samt innilega að svoleiðis sjónarmið ráði ekki för þegar kemur að því að ákveða hvað sé best fyrir íslenskan körfubolta. Í fyrsta lagi er hægt að ráða erlendu leikmennina aðeins seinna inn eða ráða örlítið ódýrari leikmenn. Í öðru lagi hljóta tekjurnar af aðgangseyri að hækka með fleiri leikjum. Í þriðja lagi er í góðu lagi að láta þessa launuðu leikmenn vinna almennilega fyrir laununum sínum með að spila oftar. Fyrir mér er þetta bara útfærsluatriði hvernig sé best að fjölga leikjum og hvernig sé best  að hafa fyrirkomulagið.

18 ára landslið drengja spilaði á dögunum í B-keppninni sem fram fór í Sarajevo. Þessir drengir eru tvöfaldir Norðurlandameistarar og því voru væntingar þónokkrar í körfuknattleikshreyfingunni fyrir EM. Því miður náðu þeir sér ekki almennilega á strik og enduðu í 13. sæti í B-keppninni.  Engu að síður hefur þessi 91 árgangur náð frábærum árangri á sínum stutta unglingalandsliðsferli. Ægir Þór Steinarsson náði þeim merka áfanga að vera stoðsendingahæstur í B-deildinni og er það virkilega vel gert.  Haukur Pálsson leiddi liðið í skoruðum stigum og fráköstum en Haukur er að spila eitt ár upp fyrir sig. Þessi magnaði piltur er á leið til Bandaríkjanna og mun spila í Orlando, Florida næsta vetur með Mont Verde skólanum. Líklegt byrjunarlið Mont Verde næsta vetur er því Mikki Mús sem leikstjórnandi, Andrés Önd skotbakvörður, Haukur léttur framherji, Bangsímon kraftframherji og Alladín miðherji. Að öllu bulli slepptu þá er Mont Verde Academy einn af allra bestu menntaskólum í Bandaríkjunum þrátt fyrir að Orlando sé meira þekkt fyrir Disney World og að vera ferðamannastaður. Mont Verde  hefur dælt leikmönnum í topp háskóla og sumir hafa síðan farið alla leið í NBA. Skólinn er alltaf með nokkra leikmenn utan Bandaríkjanna og er frábært fyrir Hauk að komast þarna inn.

Það er draumur margra unglinga að komast út til Bandaríkjanna í skóla. Margir sjá þetta í hyllingum en gera sér ekki grein fyrir að þessir "high schools" eru misjafnir eins og þeir eru margir. Margir þeirra eru hörku prógrömm en síðan er annað eins af skólum sem ekkert vit er að fara í. Þess vegna þurfa unglingar hér heima að passa sig á að fara ekki í hvaða skóla sem er því dæmi eru um unglinga sem hafa staðnað úti eða hreinlega farið aftur á einum vetri. En ef hægt er að komast í gott prógramm þá er um að gera að láta slag standa.

EFNIVIÐURINN

{mosimage}
(Emil Karl lengst til hægri ásamt tveimur liðsfélögum úr U 16 ára liðinu)

Í Þorlákshöfn leynist efnilegur framherji sem er skemmtilega fjölhæfur. Hann heitir Emil Karl Einarsson og er fæddur 1994. Emil spilaði með U16 á Norðurlandamótinu í vor og hefur einnig spilað í U15. Emil er með fína hæð fyrir 15 ára peyja og getur skorað á alla vegu – inni í teig, sótt á körfuna og sett skot niður fyrir utan. Hann frákastar, getur spilað boltanum fínt í kringum sig þegar hann ákveður það og er virkilega hreyfanlegur. Ákvarðanatökur geta verið svolítið villtar hjá honum og þá á hann til að missa einbeitingu og svekkja sig mikið þegar hlutirnir ganga ekki eins og í sögu. Allt eru þetta hlutir sem auðvelt er að laga með góðri tilsögn en Emil er bara 15 ára. Ef hann fínpússar skotið fyrir utan á næstunni eru honum allir vegir færir í framtíðinni. Það er vonandi að hann fari alla leið í 2 metrana en það er erfitt að treysta á svoleiðis og því miklvægt að hann haldi áfram að vinna í tækninni. Hann er ágætlega teknískur nú þegar. Emil er grannur í dag sem er eðlilegt fyrir 15 ára pjakk. Þó svo hann að hann líti út eins og gardínustöng í dag þá á hann klárlega eftir að bæta á sig kjöti á næstu árum.

Benedikt Guðmundsson