12:29:14
Framherjinn ungi Michael Beasley hjá Miami Heat hefur skráð sig í endurhæfingarmeðferð til að kljást við vandræði tengt vímuefnanotkun auk fleiri andlegra erfiðleika.

Þetta kemur í kjölfar fregna af mynd sem Beasly setti inn á Twitter-síðu sína en á myndinni, þar sem hann sést sýna nýtt húðflúr, má einnig sjá glytta í litla plastpoka sem margir álitu að hafi innihaldið kannabisefni.

Síðan var snögglega tekin niður en skaðinn var skeður og má sjá myndina víða. Í kjölfarið innritaði Beasley sig í meðferð hjá John Lucas, fyrrum þjálfara og NBA-stjörnu, sem glímdi sjálfur við eiturlyfjafíkn í áraraðir áður en að hann kom lífi sínu á rétta braut og fór að hjálpa öðru íþróttafólki sem hafði stigið út af sporinu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Beasley lendir í vandræðum sökum hegðunar sinnar en hann hefur haft það orð á sér að vera óþroskaður í hegðun og í fyrrasumar var hann dæmdur til sektar eftir að í ljós kom að hann og tveir aðrir nýliðar Miami Heat höfðu verið staddir í herbergi þar sem marihuana hafði verið haft um hönd.

Enginn hefur fengist til að tjá sig um málið, hvorki hjá NBA né Heat

Leikmannasíða Beasleys á NBA.com