10:46
{mosimage}

(Birna og íslensku leikmennirnir þurfa að taka á honum stóra sínum annað kvöld)

Íslensku landsliðin eiga tvo erfiða leiki fyrir höndum í Evrópukeppninni á morgun. Karlalandsliðið mætir Svartfellingum ytra en gestgjafarnir eru taplausir í keppninni og hafa þegar tryggt sér sæti í úrslitum B-deildarinnar. Þá tekur kvennaliðið á móti Írum að Ásvöllum en Írar hafa verið heitir upp á síðkastið.

Þegar Svartfellingar komu í heimsókn til Íslands í fyrri umferð karlaboltans höfðu þeir 66-80 sigur þar sem Jón Arnór Stefánsson fór fyrir íslenska liðinu með 20 stig og 4 stoðsendingar. Hjá Svartfellingum var Vlado Scepanovic með 16 stig. Flestir leikir Svartfellinga hafa ekki verið í neinni hættu en Hollendingar komust þeim næst í fyrri umferðinni er þeir lágu 63-70 í Hollandi.

Írar hafa vakið verðskuldaða athygli í kvennaboltanum undanfarið en þær léku síðasta gegn botnliði Sviss og höfðu þar betur 71-63. Ísland heimsótti Slóvena á sama tíma og máttu þær sætta sig við 14 stiga ósigur, 74-60. Írar eru í þriðja sæti riðilsins og berjast hart við Hollendinga um 2. sætið en Svartfellingar eru á toppnum með 16 stig, ósigraðar. Hollendingar hafa 14 stig í 2. sæti og Írar hafa 13 stig í 3. sæti. Það má því gera ráð fyrir miklum slag að Ásvöllum annað kvöld enda íslenska kvennaliðinu farið að hungra í sigur eftir þrjá tapleiki í röð í síðari hlutanum.

Ísland-Írland
Miðvikudaginn 26. ágúst kl. 19:15
Fjölmennum á Ásvelli og styðjum Ísland til sigurs

nonni@karfan.is