23:32:22
Nær útséð er með að Yao Ming verði með liði sínu Houston Rockets á næstu leiktíð, en hann er á leiðinni í aðgerð til að fá bót meina sinna. Hann braut bein í rist í rimmunni gegn LA Lakers í annarri umferð úrslitakeppninnar og eftir meðferð í sumar er ljóst að það er ekki að gróa sem skildi.

Nánar hér að neðan…

 

Þessi vandræði hafa kastað miklum efasemdum á framhaldið hjá Yao, sem er án efa í hópi frægustu íþróttamanna heims, og hefur því jafnvel verið fleygt að ferill hans sé á enda. Hann hefur verið plagaður af meiðslum í fótleggjum og fótum síðustu ár og er miklu álagi kennt um fyrir utan það augljósa, að hann er stærsti leikmaður deildarinnar, 229 sm, með öllum þeim áhættum sem það hefur í för með sér.

 

Til að bæta olíu á slúðureldinn festi Yao nýlega kaup á sínu gamla liði, Shanghai Sharks, en hann sagði að hann væri ekki að leggja drög að framhaldinu eftir leikmannaferilinn. Þetta væri einungis til að bjarga liðinu sínu, sem var á hraðri leið í gjaldþrot.

 

Hvernig sem framhaldið verður er nokkuð ljóst að Houston á eftir að verða í bullandi vandræðum á næsta ári, sem er synd þar sem þeir sýndu sínar bestu hliðar þegar þeir knúðu fram oddaleik gegn verðandi meisturum Lakers, jafnvel án Yaos og Tracy McGradys, sem verður einnig frá framan af næstu leiktíð í kjölfar aðgerðar til að laga gömul hnémeiðsli.

ÞJ