11:05:29
Hlutirnir eru ansi fljótir að breytast í heimi íþróttanna og nú er talið víst að Hedo Turkoglu, Tyrkinn öflugi sem var lykilmaður í liði Orlando Magic sem töpuðu fyrir LA Lakers í úrslitum NBA í ár, hafi ákveðið að snúa baki við Portland Trail Blazers og semja við Toronto Raptors.

 

Karfan.is sagði í gær frá þeim sterka orðrómi að Turkoglu hafi samið við Portland, en í nótt virðist hann hafa skipt um skoðun. Fréttir herma að eiginkonu hans hafi ekki hugnast að flytja til Oregon, heldu hafi henni litist betur á að flytja til Toronto, sem er mun „evrópskari“ borg og hefur á að skipa nokkrum öflugum leikmönnum frá Evrópu, þ.á.m. Andrea Bargnani og Jose Calderon.

 

Frá fjárhagslegu sjónarmiði munar ekki miklu, en Portland hafði víst boðið honum 50 milljónir fyrir fimm ára samning sem Toronto hafi toppað með 56 milljónum fyrir sama tíma.

 

Til að rýma fyrir Turkoglu þurfa Toronto að losa sig við leikmenn eins og Shawn Marion og Anthony Parker, en Portland hefur enn marga valkosti til að styrkja sig fyrir komandi leiktíð