14:02

{mosimage}

Landsliðsleikstjórnandinn Jakob Örn Sigurðarson mun leika í Svíþjóð á næsta tímabili. Hann hefur skrifað undir samning við sænsku meistarana í Sundsvall Dragons.

Sundsvall kom á óvart síðasta vetur með því að vinna titilinn eftir að hafa misst marga leikmenn. Þeir enduðu í fimmta sæti í deildinni en unnu Solna Vikings í oddaleik í úrslitum, en Sigurður Ingimundarson er einmitt að fara að taka við Solna. Liðin mættust í úrslitum árið á undan en þá hafði Sundsvall orðið deildarmeistari en Solnamenn sópuðu þeim í úrslitaeinvíginu.

Sundsvall er fjórða erlenda félagið sem Jakob leikur með en eftir háskólanám í Bandaríkjunum hóf hann atvinnumannsferilinn með Bayer Leverkusen í Þýskalandi, þaðan hélt hann til Vigo á Spáni og svo til Ungverjalands þar sem hann lék með Kecskemeti Univer áður en hann kom heim og lék með KR síðasta vetur.

Bærinn Sundsvall er ca 400 km norðan við Stokkhólm og í bænum búa um 50 þúsunud manns og er töluvert íþróttalíf í bænum og t.d. leika tveir Íslendingar með einu af knattspyrnuliði bæjarins, GIF Sundsvall. Það eru þeir Ari Freyr Skúlason og Hannes Sigurðsson en liðið leikur í næst efstu deild eftir fall úr Allsvenskan síðasta haust.

runar@karfan.is

Mynd: nonni@karfan.is