10:03

{mosimage}

Tindastóll hefur gengið frá samkomulagi við bandaríska leikmanninn Ricky Henderson um að spila með liðinu næsta vetur. Ricky er 201 cm á hæð og mun leika í stöðu miðherja hjá liðinu á næsta keppnistímabili. Þetta kemur fram á heimasíðu Tindastóls.

Ricky lék í Clarion háskólanum á skólaferli sínum og útskrifaðist þar á 2008. Hann er fjölhæfur og líkamlega sterkur leikmaður sem getur spilað undir körfunni og hefur einnig ógnun fyrir utan teiginn.  Hann er grimmur frákastari og nýtur þess að spila af krafti nálægt körfunni. Á lokaári sínu í Clarion skoraði Ricky 11.9 stig að meðalatali í leik og tók 8.8 fráköst. Síðastliðið tímabil lék hann í heimalandinu en einnig nokkra leiki í Úkraínu og miðausturlöndum.

Karl Jónsson þjálfari er sáttur við þessa niðurstöðu; „Við erum búnir að skoða fjölda leikmanna undanfarnar vikur og mánuði og niðurstaðan varð sú að ganga til samninga við Ricky. Hann lítur út fyrir að vera akkúrat sá leikmaður sem við þurfum undir körfuna, þar þurfum við áreiðanlegan og líkamlega sterkan leikmann sem er óhræddur við að láta finna fyrir sér. Það er gríðarlega mikilvægt að fráköstin verði í lagi hjá okkur og þó það sé á allra herðum í liðinu að sjá til þess er það gríðarlega mikilvægt að við höfum mann í teignum sem sé dómínerandi í þeim efnum. Við vonumst bara til þess að hann verði sá leikmaður sem hann lítur út fyrir að vera og þá erum við í fínum málum undir körfunni.“

Ennþá stendur yfir leit að leikstjórnanda og sagði Karl að hann væri búinn að skoða fjölda leikmanna í þá stöðu en ekki væri ennþá komið á hreint hvern liðið semur við. "Þetta er mikilvægasta staðan á vellinum hjá okkur og mikilvægt að vanda valið þar. Við höfum unga stráka sem gætu í framtíðinni valdið þessari stöðu en þeir þurfa stuðning í hana næsta vetur og mitt markmið er að fá leikmann í þessa stöðu sem þeir geta lært af.

Undirbúningstímabilið hefst formlega þriðjudaginn 4. ágúst n.k. en leikmenn hafa verið að lyfta lóðum alveg frá 8. júní.

Þeir sem vilja sjá myndband með kappanum get kíkt hér .

 

 

www.tindastoll.is