12:00
{mosimage}

(Pétur Már í þá gömlu góðu í Borgarnesi)

Pétur Már Sigurðsson fyrrum leikmaður Skallagríms, KFÍ og fleiri félaga hefur verið ráðinn sem þjálfari meistaraflokks karla og unglingaflokks karla á Laugarvatni en Laugvetningar féllu eins og kunnugt er úr 1. deildinni á síðustu leiktíð og leika í 2. deild næsta vetur. Karfan.is náði stuttu tali af Pétri sem á ekki von á því að vera virkur á vellinum en þó mun hann eflaust láta til sín taka endrum og sinnum. Pétur var einn sterkasti leikmaður Laugdæla síðasta vetur með 25,4 stig að meðaltali í leik en ætlar nú að einbeita sér að þjálfuninni ásamt því að stunda nám við Íþróttakennaraskóla Íslands.

,,Starfið leggst mjög vel í mig og ég hlakka mjög mikið til að takast á við þetta verkefni. Er með mikið af ungum strákum, sem eru í unglingaflokki, í bland við stráka úr háskólanum,“ sagði Pétur en ætlar hann að láta mikið að sér kveða á vellinum í 2. deildinni?

,,Ég ætla sjálfur að spila sem minnst vegna meiðsla sem ég er búinn að eiga við síðustu ár en ég held að það eigi ekki eftir að skaða liðið neitt því það eru nóg af ungum og efnilegum leikmönnum á Laugarvatni. Einnig er mikill metnaður fyrir körfunni hér og ætla Laugdælir að senda lið í Íslandsmót í meistaraflokki karla og kvenna og unglingaflokki karla svo það verður nóg að gera á Laugarvatni í vetur,“ sagði Pétur.

nonni@karfan.is