23:14:45


Í allt sumar hefur verið stórt spurningarmerki við framhaldið hjá Odom sem var laus allra mála hjá Lakers þar sem hann hefur leikið síðustu fimm árin eftir að hann kom frá Miami Heat í skiptum fyrir Shaquille O´Neal. Ljóst var að hann þyrfti að taka á sig launalækkun í ár þrátt fyrir að vera á hátindi ferils síns einungis 29 ára gamall. Fyrir utan Lakers voru Dallas Mavericks og sérstaklega Miami Heat að bera víurnar í hann og var um tíma talið að hann væri við það að flytja til Miami.

 

Umboðsmaður Odoms svaraði ekki tilboði Lakers en var á meðan að skoða svipuð eða jafnvel verri tilboð frá Dallas og Miami. Þetta varð til þess að Jerry Buss, eigandi Lakers, dró tilboðið til baka og er nokkuð víst að hann fær nú eilítið minna fyrir sinn snúð en í fyrra tilboði.

 

Hvati Lakers til að halda í Odom eru fjölmargir. Odom er hávaxinn framherji sem getur komið upp með boltann, stýrt spilinu, skotið alls staðar af vellinum, keyrt upp að körfunni, er frábær frákastari og vel frambærilegur varnarmaður þar að auki. Kobe Bryant hefur í allt sumar talað fyrir því að Odom komi aftur, enda ómissandi í hópinn. Hann tók á sig skyldur sjötta manns síðasta vetur þar sem hann var með um 11 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar, en hans kostir komu helst í ljós í úrslitakeppninni þar sem hann lék þrátt fyrir meiðsli og var einn af lykilmönnunum í sigurgöngu Lakers.

 

Heat lögðu þó fast að honum að snúa aftur til Flórída þar sem hann átti góða tíma áður. Pat Riley, forseti Heat, kom til LA, væntanlega til að rabba við Odom, en það gerði stórstjarnan og stigakóngurinn Dwayne Wade einnig. Wade hafði líka rekið harðan Twitter-áróður fyrir því að Odom „kæmi heim“.

 

Þannig er þó nokkuð ljóst að meistararnir mæta aftur til leiks með nær óbreytt lið, fyrir utan að Ron Artest er kominn í stað Trevor Ariza. Á pappírunum styrkir þetta liðið frekar en hitt, en það mun allt velta á tilfinningalífi Artests, sem hefur fetað mjóa línu milli ferils sem einhver besti varnarmaður deildarinnar og óttalaus baráttujaxl, og þess sem ólátabelgs sem lætur vandræði í einkalífinu hafa neikvæð áhrif á sig og alla i kringum sig.

ÞJ