11:45:52
Portland Trail Blazers hafa fengið til sín leikstjórnandann Andre Miller, en hann var samningslaus og þurftu Blazers því ekki að láta neina leikmenn í stað hans.

 

Miller, sem fær 22 milljónir dala fyrir næstu 3 árin, er 33ja ára gamall og jafnan talinn í hópi betri leikstórnenda deildarinnar, hann missir nær aldrei af leik (þremur leikjum á tíu árum), er öruggur á boltanum og yfirvegaður persónuleiki. Hann ætti að falla vel að leik Portland sem er ekki mikið hlaupalið, raunar eru þeir hægasta lið deildarinnar þrátt fyrir að hafa á að skipa einum yngsta og efnilegasta leikmannahópi allra liða.

 

Miller gat sér fyrst gott orð hjá Cleveland í upphafi ferils síns þar sem hann gerði vel í að stýra algjörlega glötuðu liði, en eftir stuttan stans hjá LA Clippers fór hann yfir til Denver þar sem hann sýndi að hann gæti líka stýrt hröðu liði sem hljóp viðstöðulaust allan leikinn. Þaðan fór hann til Philadelphia þar sem hann hefur verið í tvö og hálft ár og var með 16.3 stig og 6.5 stoðsendingar á móti aðeins 2.4 töpuðum boltum.

 

Fyrir á fleti leikstjórnanda hjá Blazers eru þeir Steve Blake og Jerryd Bayless. Blake er ekki afleitur leikstjórnandi, en hefur lítið í Miller að gera, leiki sá síðarnefndi eins og hann á að sér að gera. Bayless er ungur og efnilegur, en náði ekki að sanna sig á nýliðaári sínu í fyrra, þannig að Miller ætti að verða fyrsti valkostur Nate McMillan, þjálfara liðsins.

Blazers hafði áður mistekist að fá til sín þá Hedo Turkoglu og Paul Millsap.

ÞJ