20:18
{mosimage}

(Egill, rétt eins og sannur Pacers aðdáandi, heldur mikið upp á Reggie Miller)

Vinsældir NBA boltans á Íslandi eru miklar og hafa verið vaxandi undanfarin ár. Vinsælustu liðin eru þau sem hafa verið í toppbaráttu síðustu messeri. Þó leynast stuðningsmenn liða sem hafa ekki verið að "brillera" undanfarin ár. Núna hefur verið stofnaður stuðningsmannaklúbbur Indiana Pacers á Íslandi á facebook. Stofnandi síðunnar er efnilegur knattspyrnumaður sem leikur með 2. flokki KR en KR-ingar tróna á toppnum í 2. flokki þessa dagana. Pilturinn heitir Egill Ólafsson og leitar að fleiri stuðningsmönnum Pacers en segir það ganga illa. Hægt er að finna síðuna hans Egils undir "stuðningsmenn Indiana Pacers á Íslandi". Karfan.is heyrði í Agli sem er vel inni í málum Pacers.

Hvað hefur þú haldið lengi með Pacers ?
Ég byrjaði að fylgjast almennilega með NBA árið 2000. Það ár áttust við LA Lakers annars vegar og Indiana Pacers hins vegar í úrslitum deildarinnar. Allir sem ég talaði við héldu með Lakers í þessari seríu, þannig að ég gerðist uppreisnarseggur og hélt með Pacers. Það kom svo á daginn að Lakers unnu seríuna, en ég hef síðan þá haldið í við mína menn í Pacers sem hafa ekki náð í úrslit síðan þá.

Uppáhaldsleikmaður?
Í núverandi Pacers liði er kraftframherjinn Troy Murphy minn uppáhalds leikmaður. Það sem gerir hann svo skemmtilegan er það að hann er góð 3ja stiga skytta og skýtur mikið fyrir utan, ásamt því að vera góður að posta upp. Hann getur jafnvel spilað miðherja. En þegar uppáhaldsleikmaður í sögu Pacers er skoðaður kemur í rauninni bara einn til greina; Reggie Miller. Reggie á flest einstaklingsmet í metabókum Pacers, ásamt því að eiga flestar 3-ja stiga körfur í sögu NBA. Það sem best er við Reggie er það að hann ákvað ekki að stökkva frá Pacers, sem er talið lítið lið, og fara í eitthvað stærra lið þar sem hann ætti meiri möguleika að vinna sér hring. Hann var 18 ár hjá Pacers og er klárlega merkasti leikmaður félagsins. Svo er ekki að ástæðulausu að hann er  kallaður King-of-Clutch!

Hvernig lýst þér á komandi vetur?
Mér lýst frábærlega á næsta vetur! Við erum með ungt lið sem er stanslaust að bæta sig. Danny Granger er orðinn all-star leikmaður. Hann gæti orðið næsti Reggie Miller. Svo höfum við reynda leikmenn á borð við Troy Murphy, Jeff Foster, TJ Ford og Mike Dunleavy. Árangur liðsins veltur mikið á meiðslum Mike Dunleavy, en hann hefur mikið verið meiddur síðustu ár. Ef hann er heill, þá eru allir möguleikar opnir. Svo eru ungir leikmenn á borð við Brandon Rush og Roy Hibbert sem munu koma skemmtilega á óvart í vetur. Svo ber að nefna heimavöllinn, Conseco Fieldhouse. Liðin sem töpuðu þar síðasta vetur voru stórliðin Lakers, Cavaliers, Magic, Celtics, Nuggets þannig að Conseco Fieldhouse getur talist sem gryfja fyrir önnur lið að koma í og erfitt að sækja sigur.

Hver á eftir að láta ljós sitt skína á næsta tímabili?
Á næsta tímabili er mikilvægt að menn stígi upp. Pacers eru á ákveðnu uppbyggingarstigi og til að það gangi eftir verða leikmenn að bæta sig. Ég hef mikla trú á því að Danny Granger taki næsta skref og bæti sig enn frekar frá því sem hann hefur gert síðustu ár. Svo er einn leikmaður sem var nýliði í fyrra. Sá leikmaður heitir Brandon Rush. Hann byrjaði illa síðasta vetur en var stanslaust að bæta sig. Í síðustu 10 leikjunum í fyrra var hann með yfir 20 stig í leik þannig það sá maður mun koma sterkur inn.

Telurðu að pikkið þeirra í draftinu eigi eftir að hjálpa liðinu?

Já klárlega! Það er í rauninni ótrúlegt hvað pacers fengu góðan leikmann í þrettánda vali. Tyler Hansbrough varð fyrir valinu hjá Pacers. Það þarf bara að skoða afrek þessa leikmanns til að sjá gæði hans. Hann spilaði öll 4 árin í skólanum sínum(North Carolina) og náði þeim merka áfanga að verða stigahæsti leikmaður í sögu skólans. Hann var tíður gestur í liði ársins og mæli ég með því að menn skoði þennan leikmann vel og hvað hann hefur gert í háskólaboltanum, því hann mun koma með þá reynslu og umbreytast þannig í mjög góðan NBA-leikmann. Hansbrough mun vera varamaður fyrir Troy Murphy til að byrja með og eru Pacers þá með 2 sterka kraftframherja sem leysa stöðuna mjög vel.

Hvers vegna Indiana Pacers?
Það var ákveðin uppreisn í mér sem kom mér í það að byrja að halda með Pacers eins og ég sagði hérna á undan. Ég hef samt sem áður haldið mig við þetta leið þrátt fyrir döpur ár uppá síðkastið. En það verður þá bara ennþá skemmtilegra þegar við verðum meistarar. Einn daginn…..

Heldur þú að það leynist fleiri dyggir stuðningsmenn Pacers til á Íslandi?

Ég hef leitað að þeim eitthvað, hef stofnað stuðningsmannafélag á Facebook en enginn hefur komið í það félag. Ég veit ekki um neinn, en hef trú á því að eitthverjir leynist þarna úti!