22:30:41
LeBron James, ofurstjarna Cleveland Cavaliers sem og frægasti og að flestra mati besti körfuknattleiksmaður í heimi, hefur oft verið sakaður um að hafa lítinn húmor fyrir sjálfum sér og missa sig oft í sjálfhverfu en hann setti ný viðmið í þeim efnum á dögunum.

Nánar hér að neðan…


LeBron stóð fyrir körfuboltabúðum, svokölluðum Skills Academy, þar sem ungir leikmenn koma saman og svo vildi til í æfingaleik að Jordan nokkur Crawford, keyri upp að körfu þar sem James var til varnar og tróð í andlitið á honum svo hann og allir viðstaddir muna eftir því í langan tíma.

Það væri kannski ekki fréttaefni, enda er Crawford þessi engin stjarna í nokkrum skilningi þess orðs og ekki fastamaður í liði sínu, en viðbrögð James og Nike, sem kostar þessar búðir, hafa vakið gríðarlega viðbrögð í körfuboltaheiminum.

Eftir leikinn komu aðstandendur búðanna upp að tveimur mönnum sem höfðu náð atvikinu á myndband og gerðu spólurnar upptækar og þar með allt myndefni sem hefur að geyma troðsluna góðu.

Þykir James hafa sett niður við þennan gjörning, en hann hefur sjálfur ekki tjáð sig um atvikið. Nike hefur hins vegar gefið út yfirlýsingu þar sem þeir ítreka að aldrei hafi verið leyfilegt að mynda leikina á þessum búðum og því hafi spólurnar verið teknar.

Þetta varð þó aðeins til að bæta olíu á eldinn, en orðspor James beið einnig nokkra hnekki þegar hann rauk af velli án þess að tala við nokkurn eftir að Orlando Magic sló Cleveland úr leik í úrslitum Austurdeildarinnar í vor. Hann óskaði hvorki andstæðingum sínum til hamingju, né hitti fjölmiðla eftir leikinn og var í kjölfarið stimplaður sem barnalegur og tapsár, nokkuð sem lagast varla við þennan síðasta kafla í sögu hans.

Nú er beðið eftir að „Kóngurinn“ tjái sig um málið, en þangað til má sjá þetta viðtal við Crawford , sem hóf þetta fjargviðri á einni léttri keyrslu upp að körfunni.

ÞJ