18:56
{mosimage}

(Sveinbjörn á góðri stundu með stuðningsmönnum ÍR)

Sveinbjörn Claessen verður áfram í herbúðum ÍR, næstu leiktíðina að minnsta kosti. Þessi öflugi leikmaður hefur legið undir feld undanfarið og skoðað möguleikana en úr varð að hann mun leika eitt tímabil til viðbótar í Hellinum áður en hann leggur land undir fót til að spreyta sig í atvinnumennskunni. Karfan.is ræddi við Sveinbjörn um næstu leiktíð en hann er við það að ljúka grunnnámi í lögfræði og er óðar að ná sér góðum af þrálátum meiðslum sem hafa angrað hann síðustu misseri.


,,Það voru nokkur íslensk lið sem höfðu samband við mig og ég spjallaði við nokkur þeirra. Það voru þreifingar í gangi en ég er bara ÍR-ingur og held að mínum hagsmunum sé best borgið í ÍR og vil hvergi annars staðar vinna titla heldur en hjá mínu uppeldisfélagi,” sagði Sveinbjörn í samtali við Karfan.is. ,,Ég er gríðarlega spenntur fyrir næstu leiktíð og ef við fáum einn sterkan mann til liðs við félagið til viðbótar mun það örugglega gera okkur kleyft að fara ofar en í 7. sætið,” sagði Sveinbjörn sem á þar síðustu leiktíð lék til undanúrslita með ÍR gegn Keflavík en datt út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð.

,,Hugurinn stefnir hærra en undanfarin ár og með mig, Hreggvið, Sovic og aðra uppalda ÍR-inga verðum við flottir. Ég vona að við styrkjum hópinn enn frekar en við verðum kanalausir,” sagði Sveinbjörn og bætti við að þó Ómar Sævarsson sem skipti nýverið yfir til Grindavíkur skildi eftir sig stórt skarð væri Nemanja Sovic ekki síðri leikmaður.

Það er ekkert leyndarmál hjá Sveinbirni að hugar hans reikar til útlanda í atvinnumennskuna og nýverið kannaði hann stöðuna með frönskum umboðsmanni. ,,Að sjálfsögðu var ég farinn að gæla við útlönd og ég mun reyna það aftur á næsta ári. Þá verðum bæði ég og kærastan mín búin með grunnnámið í okkar fögum og því ekkert í vegi fyrir því að láta drauminn rætast,” sagði Sveinbjörn en kvað fátt spennandi hafa komið upp á borðið í vinnu sinni með franska umboðsmanninum.

{mosimage}

,,Skólinn er númer eitt og það er gott að hafa grunnprófið í lögfræðinni upp á að hlaupa ef maður ílengist ekki í boltanum,” sagði Sveinbjörn en honum fannst atvinnumennskudraumurinn ansi fjarlægur fyrir nokkrum árum. ,,Mér datt ekki í hug að þetta væri möguleiki en svo hafa menn heldur betur afsannað það, t.d. Jóhann Árni, Jakob Örn, Pavel og allir þessir strákar. Það gerist ekkert í þessu fyrr en maður reynir. Svo annað hvort nýtir maður tækifærin eða kemur bara heim, ég veit að ef ég læt ekki reyna á þetta þá mun ég alltaf sjá á eftir því,” sagði Sveinbjörn sem veit upp á hár hvað hann vill út úr næstu leiktíð.
,,Íslandsmeistaratitill! Það er stefnan, ef maður er ekki að stefna á efsta sætið þá getur maður allt eins spurt sig til hvers maður sé í þessu. Ég er ekki í boltanum til að vera með og því stefni ég á toppinn, annað væri óíþróttalegt,” sagði Sveinbjörn ákveðinn en hvernig standa leikar hjá honum með þau langvarandi meiðsli sem hafa strítt honum síðustu misseri?
,,Þetta eru heljarinna meiðsli sem ég hef verið að standa í og hef í raun verið í sama pakka og í fyrra. Eftir gríðarlega endurhæfingu sem hófst í apríl þá er ég að komast á ról og eftir gott styrktarprógramm hjá Vilhjálmi Steinarssyni. Ég finn gríðarlegan mun á mér og sé að ég gerði ákveðin mistök í því að styrkja mig ekki nægilega í fyrra. Nú stefni ég bara á landsliðsprógrammið og að komast inn í landsliðið fyrir Evrópumótið,” sagði Sveinbjörn og eflaust er honum létt að framtíð hans næstu leiktíðina sé ráðin og þá eru þeir vísast ófáir ÍR-ingarnir sem anda léttar um þessar mundir enda Sveinbjörn einn af sterkustu leikmönnum íslensku deildarinnar.
nonni@karfan.is