23:26:25
Eitthvað gæti loks verið að gerast í málum Allens Iverson, sem er samningslaus og hefur verið án félags eftir að hann yfirgaf herbúðir Detroit Pistons í lok leiktíðar. Donnie Walsh, forseti NY Knicks, hitti kappann víst fyrir á fundi nýlega og hefur áhuga á að fá hann til liðsins. Iverson myndi sætta sig við eins árs samning upp á tæpar 6 milljónir dala, en það þýðir líka að Mike D‘Antoni verður ekki að ósk sinni að bjóða í Ramon Sessions hjá Millwaukee Bucks, sem er með lausan samning sem Bucks geta þó jafnað.

 

Eins og flest allt sem viðkemur leikmannamálum í NBA þetta árið er lykilatriðið samningslengd og peningar, eða öllu heldur skortur á þeim.

 

Sessions, sem er ungur og bráðefnilegur leikstjórnandi, verður væntanlega utangátta hjá Bucks sem hugsa nýliðann Brandon Jennings sem framtíðarmann í þeirri stöðu, en hann er að leita sér að framtíðarliði, þ.e. lengri samningi en til eins árs. Það truflar hins vegar áætlanir Walsh um að Knicks muni eiga mikið rými undir launaþakinu á næsta ári þegar obbinn af bestu leikmönnum deildarinnar verður með lausa samninga.

 

Þannig að ef Iverson verður fyrir valinu er Walsh ekki búinn að gefast upp á að fá LeBron James til liðsins ásamt t.d. Chris Bosh. Koma Sessions myndi hins vegar gefa til kynna að hann hafi afskrifað þann möguleika.

 

Bucks hafa hins vegar styrkt sig, en þeir fengu til sín framherjann Hakim Warrick eftir að Charlotte Bobcats ákváðu ekki að jafna tilboð þeirra. Hann verður ódýr miðað við getu, en hann fær víst 3 milljónir fyrir eitt ár, en það þýðir að Sessions er nær örugglega á leið burtu hvort sem það verður til Knicks eða LA Clippers, sem hafa einnig verið að fylgjast með honum að undanförnu.

 

Knicks eru þó búnir að baktryggja sig og hafa fest sér réttinn til að bjóða Jason Williams samning, en Williams sem lék með Sacramento, Memphis og Miami hætti körfuknattleiksiðkun í fyrra. Þeir hafa frest fram í næstu viku til að bjóða honum samning. Auk þess eru þeir víst búinir að semja við troðslumeistarann Nate Robinson um eins árs framlengingu á samningi hans en ekki er enn búið að semja við framherjann David Lee, sem gæti yfirgefið liðið, fái hann nægilega gott tilboð annars staðar frá.

ÞJ

Mynd/nba.com