07:36:34
Ron Artest hefur gengið til liðs við meistara LA Lakers, en samningur hans við Houston Rockets rann út fyrir skemmstu. Án þess að málið sé frágengið herma fregnir að hann hafi gert þriggja ára samning við stórveldið og fái fyrir það 18 milljónir dala. Artest er með betri varnarmönnum deildarinnar en hefur oft og tíðum verið mesti varndræðagemsi eins og sannaðist í hinum frægu ólátum í Detroit fyrir fimm árum síðan. Hann hagaði sér hins vegar mjög vel á síðasta ári með Houston og vona forsvarsmenn Lajers væntanlega að það sé dæmi um það sem koma skal.

 

Nánar hér að neðan…

 

Í beinu framhaldi fór Trevor Ariza hina leiðina, frá Lakers til Houston, en Ariza var samningslaus og var nokkuð ljóst að hann væri með hærri launakröfur en Lakers myndu samþykkja ótilneyddir. Aðalsmerki Ariza er varnarleikur en Artest ætti að fylla það skarð og rúmlega það því að hann var m.a. valinn varnarmaður ársins í NBA árið 2004.

 

Nú eiga Lakers bara eftir að ná samkomulagi við Lamar Odom og verður þá allri óvissu varðandi leikmannamál hjá meisturunum væntanlega lokið.

Mynd/AP – Góðkunningjarnir Kobe og Ron Artest verða samherjar á næsta ári

ÞJ