18:30
{mosimage}

 

(Unnur Tara í leik með Haukum í Vodafonehöllinni. Verður það nýji heimavöllurinn hennar?) 

 

Kraftframherjinn Unnur Tara Jónsdóttir mun að öllum líkindum ekki leika með Haukum á næstu leiktíð. Þetta staðfesti leikmaðurinn í samtali við Karfan.is. Unnur Tara tjáði Karfan.is að miklar breytingar þyrftu að eiga sér stað ef hún ætti að vera áfram í Hafnarfirði.

 

,,Ég er sátt við tíma minn hjá Haukum að frátalinni síðustu leiktíð. Ég hefði hugsanlega átt að fara fyrr frá félaginu en ég fann að það var kominn tími á breytingar,” sagði Unnur Tara en vildi ekki gefa upp nákvæmlega ástæðurnar fyrir brottför sinni frá Haukum.

 

,,Ég var orðin svolítið þreytt á körfubolta en ég bara veit ekki hvað verður því það eru fá lið sem maður getur farið til ef maður er ekki á mála hjá Haukum,” sagði Unnur Tara sem búsett er í Kópavogi svo það liggur beinast við að segja að KR, Valur og Fjölnir séu næstu kostir hennar.

 

,,Ég er búin að taka mér smá frí og er að hugsa mín mál. Landsliðsæfingarnar eru byrjaðar og ég verð brátt að gera upp hug minn um hvort ég gefi kost á mér í verkefnin með landsliðinu. Mér finnst mjög gaman í körfubolta og það væri erfið ákvörðun að hætta og ég mun örugglega aldrei geta hætt alveg í körfu svo það er spurning hvar maður verður á næstu leiktíð,” sagði Unnur Tara sem gerði 12,4 stig að meðaltali í leik með Haukum á síðustu leiktíð og tók að jafnaði 7,1 frákast í leik.

 

nonni@karfan.is