16:15

{mosimage}

Íslenska U 16 ára landslið pilta hafði í dag glæsilegan 83-69 sigur á Svíum á Norðurlandamótinu í Solna og hafa því unnið þrjá leiki í röð og tryggt sér sæti í úrslitaleik mótsins. Liðið mætir Finnum á morgun en úrslit þessa leiks hafa ekki áhrif á framhaldið, Ísland mun leika til úrslita á sunnudag.

Annan leikinn í röð var það Haukur Helgi Pálsson sem tróð á lokasekúndum leiksins og að þessu sinni braut hann sér leið í gegnum sænska teiginn og tróð með tilþrifum yfir tröllinn sem stóðu á blokkinni. Frábær tilþrif hjá þessum magnaða leikmanni sem er vafalítið að fara á kostum hér í Solna. Aðrir leikmenn íslenska liðsins áttu einnig magnaðan dag. Björn Kristjánsson bætti við 16 stigum og Hjalti Valur Þorsteinsson var með 14 en Haukur Helgi Pálsson átti völlinn með 34 stig, 16 fráköst, 6 stolna bolta og 5 stoðsendingar.

 

Svíar byrjuðu betur og komust í 8-17 en Ísland var ekki lengi að svara og minnkaði muninn í 17-21 en fyrsta leikhluta lauk í stöðunni 18-25 fyrir heimamenn og íslenska vörnin nokkuð sofandi framan af leik.

 

{mosimage} 

 

Í öðrum leikhluta náðu bæði lið að stoppa lítið eitt í götin í vörninni en með tveimur þriggja stiga körfum frá Birni Kristjánssyni minnkuðu Íslendingar muninn í 36-42. Liðin héldu svo til hálfleiks í stöðunni 38-43 fyrir Svía.

 

Íslenska liðið kom einbeitt inn í síðari hálfleikinn og undir styrkri stjórn Óla Ragnars Alexanderssonar, leikstjórnanda, náðu Íslendingar að komast yfir 56-54 en það var eftir þriggja stiga körfu frá Hjalta Val Þorsteinssyni. Björn Kristjánsson var svo aftur á ferðinni fyrir utan þriggja stiga línuna þegar 5 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta og breytti stöðunni í 66-59 Íslandi í vil og frábær þriðji leikhlut á enda hjá íslenska liðinu.

 

Svíar reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna metin en íslensku strákarnir hleyptu þeim ekki nærri og kláruðu leikinn af miklu öryggi. Ólafur Helgi Jónsson átti magnaða innkomu í fjórða leikhluta og gerði tvær stórar þriggja stiga körfur sem endanlega tryggðu sigurinn og slökktu allan neista sem var í Svíum.

Haukur Helgi Pálsson átti magnaðan dag en í heild var íslenska liðið að leika góðan bolta. Voru óeigingjarnir og allir þeir sem komu inn á parketið lögðu sín lóð á vogarskálarnar.

Lokamínúta leiksins með troðslu Hauks

Hljóðskrá – viðtal við Hauk eftir leikinn

Stigaskor Íslands
 

Haukur Helgi Pálsson 34/ 16 frák/ 6 stolnir/ 5 stoðsendingar

Björn Kristjánsson 16

Hjalti Valur Þorsteinsson 14

Styrmir Gauti Fjeldsted 8

Ólafur Helgi Jónsson 6

Óli Ragnar Alexandersson 2

Elvar Sigurðsson 2

Anton Örn Sandholt 1 

 

{mosimage}

 

nonni@karfan.is