22:15
{mosimage}

 

(Dagmar Traustadóttir sendir eina eldflaug af stað) 

 

Stelpurnar í U 16 ára landsliði Íslands unnu sinn fyrsta sigur á Norðurlandamótinu í Solna í dag þegar þær lögðu Norðmenn 60-47. Norðmenn höfðu frumkvæðið fyrstu þrjá leikhlutana en frábær vörn íslenska liðsins í fjórða og síðasta leikhluta skilaði liðinu sínum fyrsta sigri. Guðbjörg Sverrisdóttir var atkvæðamest í liði Íslands með 16 stig og 14 fráköst.

 

Íslenska liðið varð fyrir smávægilegu áfalli þegar Guðbjörg Sverrisdóttir þurfti að fara snemma af velli og sýndist hún vera meidd en harkan úr Hafnarfirði skilaði henni snögglega aftur inn á völlinn. Norðmenn voru ívið beittari og leiddu 11-12 að loknum fyrsta leikhluta.

 

Lengstum af öðrum leikhluta leiddu Norðmenn en íslensku stelpurnar hleyptu þeim aldrei langt frá sér og því var jafnt á með liðunum í hálfleik, 25-25.

 

Eftir því sem leið á síðari háflleikinn tókst íslenska liðinu að þétta varnarleikinn sinn og eftir þrjá leikhluta var staðan 39-43 fyrir Noreg. Í fjórða leikhluta small íslenska vörnin í gír og Norðmenn áttu aldrei möguleik.

 

Rannveig Ólafsdóttir kom Íslendingum í 44-43 er hún skoraði og fékk víti að auki og íslensku stelpurnar litu aldrei til baka eftir þetta. Norðmenn komust hvorki lönd né strönd í sókninni þar sem svæðisvörn Íslands hreyfði sig vel sem ein heild.

 

Íslenska liðinu óx ásmegin og breyttu stöðunni í 57-43 með 13 stiga áhlaupi. Norðmenn gerðu sín fyrstu stig í fjórða leikhluta þegar 1.16 voru til leiksloka sem þýðir að íslensku stelpurnar héldu Norðmönnum stigalausum í tæpar níu mínútur, glæsileg vörn. Lokatölur voru svo 60-47 fyrir Ísland eins og áður greinir þar sem Guðbjörg Sverrisdóttir var með 16 stig og 14 fráköst. Dagmar Traustadóttir gerði 15 stig og Rannveig Ólafsdóttir bætti við 11.

 

{mosimage}

(Guðbjörg Sverrisdóttir)

 

Stigaskor Íslands

 

Guðbjörg Sverrisdóttir 16/ 14 fráköst

Dagmar Traustadóttir 15

Rannveig Ólafsdóttir 11

Heiðrún Kristmundsdóttir 6

María Jónsdóttir 5

Ína María Einarsdóttir 3

Hrafnhildur Sif Svavarsdóttir 2

Berglind Gunnarsdóttir 2

 

nonni@karfan.is

 

{mosimage}

(Hrafnhildur Sif Svavarsdóttir)

 

{mosimage}

(Örvar Þór Kristjánsson skemmti sér vel á U 16 leik Íslands og Noregs. Honum á vinstri hönd eru hjónin Alexander og Bylgja og Örvari á hægri hönd er Einar Árni Jóhannsson en hann vill ekki alveg kannast við Örvar á þessari mynd)