14:11
{mosimage}

 

(Rob Hodgson) 

 

Karfan.is ræddi við Rob Hodgson þjálfara U 16 ára liðs kvenna eftir stórt tap gegn Finnum í morgun. Lokatölur leiksins voru 42-91 Finnum í vil. Rob sagði í samtali við Karfan.is að markmiðið væri hjá liðinu að bæta sig í hverjum leik.

  Rob, segðu okkur aðeins frá leiknum frá þínu sjónarhorni

Ég er mjög ánægður með nokkra hluti í leiknum, m.a. að við erum með nokkrar stelpur sem eru árinu yngri og þær fengu tækifæri til að ná stressinu úr sér snemma og næla sér í reynslu.  Við náðum að gera ýmislegt sem ég er mjög ánægður með gegn jafn sterku liði og Finnland er með, við náðum m.a. 11-4 áhlaupi á þær, náðum að keyra niður skotklukkuna hjá þeim nokkrum sinnum með góðri vörn og ég er mjög ánægður með þessa þætti.  Það er greinilega mikill munur á stigatöflunni í lok leiks, en við erum ekki að fókusa of mikið á það heldur erum við að reyna að einbeita okkur að því að sem við getum gert til að verða betri með hverjum leik og okkur tókst að vinna í nokkrum þáttum í þessum leik.

 
Hvaða þætti í leik liðsins sérðu fyrir þér að þurfi að bæta á þessu móti?

Við þurfum að geta spilað betur gegn jafn grimmri vörn og leikin er hér.  Vörnin hjá Finnum var sú grimmasta sem margar þessara stúlkna hafa nokkru sinni leikið gegn.  Við þurfum að leika af meiri krafti líka og vera skynsamari og jafnframt að frákasta mun betur.  Stærsti hlutinn við að taka fráköst er að vilja að ná frákastinu.  Við gerðum það ágætlega í fyrri hálfleik áðan, vorum með 17 fráköst gegn 21 frákasti Finna og ég er ánægður með það.  Ef við höldum því áfram þá verður komum við til með að ná fleiri skotum á körfuna.

 
Liðið tapaði 40 boltum í leiknum áðan, hvernig ætlar þú að bregðast við því?

Mikið af þessum töpuðu boltum voru mistök sem við gerðum án þess að það væri pressa á okkur, eins og að stíga út af og að klára ekki sendingar á samherja.  Svo eru bara svona einfaldir hlutir eins og vera skynsöm og þolinmóð og þegar verið er að pressa okkur að vera þolinmóð með boltann og bíða eftir því að samherjar sýni sig.  Í leiknum áðan þá voru stóru leikmennirnir í liðinu stundum í aðstæðum sem við viljum ekki koma þeim í og það kostaði tapaða bolta.  Svo þurfum við að hreyfa okkur betur án bolta til að opna sendingalínur eða til að opna svæði á vellinum fyrir aðra leikmenn.  Ég held að við getum alveg fækkað þessum töpuðu boltum, því ég held að margir þeirra hafi tapast vegna spennustigsins.

 

Snorri Örn Arnaldsson