15:42
{mosimage}

 

(Ólafur Ólafsson í leik með U 18 ára liðinu í Solna) 

 

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur í Iceland Express deild karla, vakti töluverða athygli á Norðurlandamóti unglinga í Solna á dögunum fyrir vasklega framgöngu á parketinu. U 18 ára lið karla hafnaði í 4. sæti í mótinu og var Ólafur fyrirferðamikill í vösku landsliðinu. Þar vakti hann athygli hjá norskum þjálfara sem hefur nú slegist í lið með Ólafi og vill ólmur koma honum á sýningarmót í Las Vegas síðla júnímánaðar.

 

,,Það er verið að vinna í þessum málum og við eigum von á einhverjum svörum á næstunni,” sagði Ólafur í samtali við Karfan.is en honum þótti líklegt að ef ekkert verður af Bandaríkjadraumum hans að Grindavík yrði áfram fyrir valinu hér heima.

 

Troðslumeistarinn 2007 fékk ekki mörg tækifæri í herbúðum Grindavíkur á síðustu leiktíð. Hann lék aðeins 30 mínútur með Grindavík í deildarkeppninni og sást bregða nokkrum sinnum fyrir í úrslitakeppninni. Ólafur sagði það ekki sjálfsagðan hlut að hann yrði áfram í Grindavík ef ekkert rættist úr Bandaríkjaförinni heldur myndi hann skoða sín mál gaumgæfilega.

 

nonni@karfan.is