11:47

{mosimage}
(Deron Williams spilaði fangavel í nótt)

Utah og San Antonio unnu leiki sína í nótt í NBA-deildinni og jöfnuðu þar með einvígi sín við L.A. Lakers og New Orleans. Staðan er 2-2 í báðum einvígum og næstu leikir verða í Los Angeles og New Orleans.

Utah var næstum því búnir að missa unninn leik frá sér í nótt en þeir misstu 12 stiga forystu á síðustu fjórum mínútum venjulegs leiktíma og grípa þurfti til framlengingar. Staðan var 108-108 að loknum venjulegum leiktíma. Utah menn sýndu klærnar í vörninni í framlengingunni og unnu hana 15-7 en Lakers skoraði tvær körfur utan að velli á meðan Utah menn kláruðu sínar sóknir.

Hjá Utah var leikstjórnandinn snjalli Deron Williams með 29 stig og 14 stoðsendingar og félagi hans Mehmet Okur var með 18 stig og 11 fráköst. Hjá Lakers skoraði Kobe Bryant manna mest eða 33 stig en hann var nálægt þrennunni með 10 stoðsendingar og 8 fráköst. Lamar Odom var næst stigahæstur með 26 stig og 13 fráköst.

Staðan er 2-2 og næsti leikur verður í Los Angeles.

Spiluðu eins og meistarar
Viðureign San Antonio og New Orleans var í beinni á NBAtv í nótt. Þeir sem vonuðust eftir jöfnum og spennandi leik urðu fyrir miklum vonbrigðum því yfirburðir San Antonio voru þvílíkir. Tony Parker var óstöðvandi í fyrri hálfleik og lét Chris Paul líta illa út. Frakkinn var með 18 stig, 6 stoðsendingar og engan tapaðan bolta í hálfleik.

San Antonio leiddi í hálfleik 55-42 og aldrei spurning hvernig seinni hálfleikur myndi þróast og þeir höfðu að lokum 20 stiga sigur 100-80 og hefði hann auðveldlega getið verið stærri en lokaleikhlutinn var leikur minni spámanna og Byron Scott, þjálfari New Orleans, viðurkenndi tap sinna manna og fór að huga að næsta leik.

Stigahæstur hjá San Antonio var Tim Duncan með 22 stig og 15 fráköst og Tony Parker var með 21 stig, 8 stoðsendingar og 6 fráköst. Hjá New Orleans skoraði Chris Paul 23 stig og næsti maður var með 11 stig en það var varamaðurinn Jannero Pargo.

stebbi@karfan.is

Mynd: AP