9:40
{mosimage}
Laugdælir tefldu fram tveimur liðum í hérðasmóti HSK 2008
Það hefur verið nokkuð athyglisvert að fylgjast með uppgangi körfuboltans á Suðurlandi undanfarin ár. Hægt og bítandi hefur liðum í deildarkeppni fjölgað þar og hafa þau flest lyft sér á hærri stall en 2. deildina. Næsta vetur eru t.d. 4 lið af Suðurlandi í 1. deild karla og 1 í Iceland Express deild karla.
En hvernig ætli standi á þessum uppgangi á meðan t.d. aðeins 3 lið eru eftir á Norðurlandi, 1 á Austurlandi og 1 á Vestfjörðum? Karfan.is hafði upp á formanni HSK, Gísla Pál Pálssyni, og spurði hvað honum finndist um þennan uppgang á hans félagssvæði.
”Mér finnst uppgangur körfuboltans á Suðurlandi vera afar gott mál. Við hjá HSK höfum haldið HSK mót í körfuknattleik síðan 1964. Mörg sunnlensk liða hafa byrjað í þessum mótum í upphafi starfs og þegar þeim hefur vaxið fiskur um hrygg taka þau þátt í Íslandsmeistaramótum KKÍ. Þannig höfum við lagt grunninn að velgengni margra liða. Þegar áhugi þeirra á HSK – mótunum minnkar drögum við þau einfaldlega saman eða þau leggjast af. Sennileg má einnig skýra velgengnina að einhverju leyti með því að sunnlensk lið hafa ekki náð góðum árangri í öðrum boltagreinum og þegar vel fer að ganga í körfunni þá fylgir áhugi krakkanna á eftir og þetta vindur upp á sig.”
En sérðu einhver félög utan þessara fimm í efstu deildunum tveimur sem eiga eftir að koma upp á næstu árum?
”Vestmannaeyingar (Reyndar ekki í HSK) voru eitt af liðunum í undanúrslitum 2.deildar þannig að líklegt er að við sjáum þá ofarlega í þeirri deild á næstu árum. Því miður hefur starfið í Drangi (Ungmennasamband Vestur Skaftfellinga) dregist saman eftir brotthvarf Justin Shouse og Björns Hjörleifssonar. Ég sé nú ekki aðra fyrir mér á næstunni líklega til afreka í annarri deild.”
Eins og Gísli Páll bendir á þá er eina af skýringunum eflaust að finna í héraðsmóti þeirra, HSK mótinu sem hófst 1964. Ef litið er á sigurvegara þess móts þá voru Laugdælir nokkurn vegin einráðir fyrstu 30 árin. Lið Laugdæla var líka kjarninn í liði HSK sem tók fyrst þátt í Íslandsmótinu 1964 í 2. deild (næst efstu deild) en það ár var í fyrsta skipti leikið í 2. deild. Annað sunnlenskt lið var með í deildinni það ár en það var lið Mímis sem hefur löngum verið lið Menntaskólans á Laugarvatni. Lið HSK vann sér svo rétt til að leika í efstu deild vorið 1969 og lék þar í 5 ár. Liðið lék ýmist undir merkjum HSK, Laugdæla eða Mímis á þessum árum og var eina liðið af svæði HSK allt fram til 1990 þegar 2. deild karla, sem þá var orðin þriðja efsta deild var endurvakin eftir nokkurt hlé. Veturinn 1990 til 91 voru 4 lið af félagssvæði HSK, Selfoss, Gnúpverjar, Laugdælir og Hrunamenn, 2 árum seinna bættust svo Mímir og ÍKÍ við og nokkrum árum seinna Hamar og Hrunamenn. Það var svo fyrir þremur árum að lið FSu var stofnað og hóf keppni í 1. deild. Að auki hafa lið Drangs og Vestmanneyinga oft á tíðum verið með í Suðurlandsriðlum 2. deildar og hafa bæði lið leikið í 1. deild.
Árangurinn á Suðurlandi er líka merkilegur fyrir þær sakir að á félagssvæðinu öllu búa aðeins 17861 manns miðað við 1. desember 2007. Það er svipað og býr á Akureyri en á Akureyri er aðeins 1 félag, þá er þetta aðeins minna en býr í Kópavogi og í Kópavogi eru aðeins 2 félög. Iðkendur á félagssvæði HSK voru 1076 árið 2007 og hafði fjölgað um 34 frá árinu á undan og eru þessir iðkendur í 14 félögum en t.d. hafa Laugdælir ekki skráð sína félagsmenn svo það má reikna með að fjöldi iðkenda á svæðinu sé yfir 1100 núna sem er ca 1/8 af öllum iðkendum á landinu.
Gylfi Þorkelsson er einn þeirra sem hefur fylgst lengi með körfuboltanum á Suðurlandi. Hann var sammála Gísla Páli um að áratuga hefð fyrir skipulögðu mótahaldi væri grunnurinn að velgengni sunnlenskra liða. Hann hóf sjálfur að keppa í hérðasmótum fyrir allnokkrum árum en þá var leikið gamla íþróttahúsinu á Laugarvatni, en það er búið að rífa núna. Það þótti svo stórt að strákarnir sem voru að æfa í Aratungu, Borg, Árnesi og fleiri félagsheimilium fengu víðáttu brjálæði þegar þeir komu á Laugarvatn. Einnig sagði Gylfi að grunnurinn að körfubolta á Flúðum og Laugarvatni væri mjög gamall og hefur verið byggt vel ofan á hann en svo hafa bæst við félög í seinni tíð á Selfossi, Hveragerði og Þorlákshöfn og nefndi Gylfi einnig sérstaklega að enn væri lið á Laugalandi í Rangárvallasýslu.
Þessi uppgangur á Suðurlandinu er glæsilegur og ætti að vera öðrum landshlutum til fyrirmyndar. Það er þó hægt að nefna eitt svæði sem hefur staðið sig jafnvel og Suðurlandið en það eru Suðurnes þar sem margir telja að vagga körfuboltans sé. Suðurnes hafa nokkrum sinnum átt 5 lið í 2 efstu deildum karla, t.d. síðastliðinn vetur.
Í þessari grein hefur einungis verið rætt um karlakeppnir en HSK menn hafa einnig staðið fyirr héraðsmótum fyrir konur og hafa þær t.d. skilað liði Hamars í Iceland Express deild kvenna og þá hafa Hrunamenn alið af sér margar körfuknattleikskonur sem leikið hafa fyrir landslið Íslands.
Við látum fljóta með lista yfir sigurvegara í hérðasmótum HSK frá upphafi.
Karlar
1964 Laugdælir
1965 Laugdælir
1966 Selfoss
1967 Laugdælir
1968 Laugdælir
1969 Selfoss
1970 Laugdælir
1971 Laugdælir
1972 Laugdælir
1973 Laugdælir
1974 Laugdælir
1975 Laugdælir
1976 Ekki keppt
1977 Laugdælir
1978 Mímir
1979 Laugdælir
1980 Laugdælir
1981 Laugdælir
1982 Laugdælir
1983 Laugdælir
1984 Laugdælir
1985 Laugdælir
1986 Laugdælir
1987 Mímir
1988 Laugdælir
1989 Laugdælir
1990 Selfoss
1991 Laugdælir
1992 Selfoss
1993 ÍKÍ
1994 Laugdælir
1995 Laugdælir
1996 Laugdælir
1997 Laugdælir
1998 Hamar
1999 Laugdælir
2000 Þór
2001 Þór
2002 Selfoss
2003 Hamar
2004 Selfoss
2005 Árborg
2006 Ekki keppt
2007 Árborg
2008 Þór
Konur
1980 Mímir
1981 Laugdælir
1982 Umf. Bisk
1983 Mímir
1984 Mímir
1985 Laugdælir
1986 Mímir
1987 Mímir
1988 Laugdælir
1989 Laugdælir
1990 Ekki keppt
1991 Ekki keppt
1992 Mímir
1993 ÍKÍ
1994 ÍKÍ
1995 Selfoss
1996 ÍKÍ
1997 Laugdælir
1998 Hrunamenn
1999 Laugdælir
2000 Hrunamenn
2001 Hrunamenn
2002 Laugdælir
2003 Hamar
2004 Hamar
2005 Hamar/Selfoss
2006 Keppni fór ekki fram
2007 Keppni fór ekki fram
2008 Keppni fór ekki fram
Mynd: www.hsk.is