15:42
{mosimage}

 

(Sigmundur Már Herbertsson, einn reyndasti dómari Íslands, dæmdi úrslitaleik í dag) 

 

Fjórir dómarar fóru með íslensku keppendunum til Solna í Svíþjóð og dæmdu þar á Norðurlandamóti unglinga. Gríðarleg ánægja var með störf íslensku dómaranna í Solna og voru þrír þeirra skipaðir dómarar í úrslitaleikjum mótsins. Sá fjórði dæmdi tvo bronsleiki í morgun. Íslensku dómararnir sem fóru út með hópnum voru þeir Sigmundur Már Herbertsson, Björgvin Rúnarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Guðni E. Guðmundsson.

 

Rögnvaldur Hreiðarsson dæmdi sinn fyrsta leik á mótinu síðasta miðvikudag en þeir Sigmundur, Björgvin og Guðni hafa áður dæmt á Norðurlandamótinu.

 

Eftirlitsmaður dómaramála á mótinu hafði það á orði við Hannes Sigurbjörn Jónsson, formann KKÍ, sem staddur er í Svíþjóð að Íslendingar hefðu klárlega sent sterkasta dómarateymið í mótið af öllum Norðurlandaþjóðunum.

 

Fjórir úrslitaleikir fóru fram í Svíþjóð í dag þar sem Björgvin Rúnarsson var fyrsti dómari í sínum leik sem og Sigmundur Már Herbertsson. Þá dæmdi Rögnvaldur Hreiðarsson einnig til úrslita og Guðni E. Guðmundsson dæmdi tvo bronsleiki í morgun.

 

Á Norðurlandamóti unglinga er dæmt í þriggja dómara kerfi og ánægjulegt að sjá íslensku dómarana finna taktinn vel í þessu kerfi en heima á Íslandi er tveggja dómara kerfi. Svíar tóku upp fyrir yfirstandandi leiktíð þriggja dómara kerfið í sinni úrvalsdeild og hefur það gefið góða raun samkvæmt heimamönnum. 

 

nonni@karfan.is