18:00
{mosimage}
(Herforinginn Ægir Þór)
Íslenska U 18 ára karlalandsliðið lagði Svía 64-59 í Solna á Norðurlandamótinu sem nú fer fram í Svíþjóð. Fjölnismaðurinn Ægir Þór Steinarsson lét ekki meiðsli gærdagsins hafa áhrif á sig og stjórnaði leik íslenska liðsins af stakri prýði. Ægir gerði 15 stig í dag, tók 6 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 6 boltum. Íslensku strákarnir börðust af miklum krafti og unnu verðskuldaðan sigur.
Framan af leik blés ekki byrlega hjá Íslendingum sem voru undir 17-6 að loknum fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta sjóðhitnuðu Íslendingar en það var ekki fyrr en á síðustu mínútunum fyrir leikhlé. Víkingur Sindri og Ólafur Ólafsson gerðu þá tvær þriggja stiga körfur í röð og minnkuðu muninn í 23-17 en piltarnir voru hvergi hættir og minnkuðu muninn í 25-24 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Í þriðja leikhluta lögðu Íslendingar grunninn að góðum sigri sínum þegar Tómas Tómasson hitnaði heldur betur og gerði 10 stig í leikhlutanum. Svíar léku svæðisvörn gegn lágvöxnu liði Íslands og það nýttu piltarnir vel og tóku opnu skotin sem rötuðu rétta leið. Staðan að loknum þriðja leikhluta var orðin 42-53 Íslendingum í vil sem börðust eins og ljón í öllum boltum. Miðherjar Íslands voru ekki að finna sig en Suðurnesjamennirnir Ólafur Ólafsson og Sigfús Árnason tóku við teignum og leystu það hlutverk gríðarlega vel. Sigfús gerði 7 stig í dag og tók 7 fráköst og gaf hávöxnum Svíum ekki tommu eftir.
Svíar tóku góða rispu í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í 50-56 en Íslendingar létu það ekki á sig fá heldur léku af skynsemi og voru fastir fyrir í vörninni. Frábær leikur hjá strákunum í dag sem rifu sig vel upp eftir miður góða frammistöðu gegn Finnum í gærkvöldi. Lokatölur því 59-64 Íslendingum í vil en allir leikmenn liðsins börðust vel í dag og geta vel unað við góða frammistöðu.
Stigaskor íslenska liðsins:
Ægir Þór Steinarsson 15
Tómas Tómasson 14
Ólafur Ólafsson 13
Víkingur Sindri Ólafsson 11
Sigfús Árnason 7
Arnþór Freyr Guðmundsson 2
Örn Sigurðarson 2
{mosimage}
(Ólafur Ólafsson frá Grindavík)