09:55

{mosimage}

Einar Árni Jóhannsson er þjálfari 16 ára liðs karla.  Hann hefur náð eftirtektarverðum árangri með liðið hér á Norðurlandamótinu, en strákarnir hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína og hafa tryggt sér sæti í úrslitaleik mótsins á sunnudag.  Karfan.is heyrði í Einari Árna að loknum leik Íslands og Svíþjóðar sem íslensku strákarnir unnu 83-69.

Klassaleikur hjá ykkur í dag Einar, segðu okkur aðeins frá leiknum.
Þetta var nú bara svona svipað og Danaleikurinn, kannski ekkert voðalega sannfærandi framan af, en þá vantaði smá sjálfstraust í okkur.  Frábær varnarleikur í síðari hálfleik og bara frábær liðsvinna á báðum endum vallarins og allir leikmenn að leggja í púkkið. Gott dæmi um sterka liðsheild er strákur eins og Hjalti Valur sem var búinn að vera frábær í þessum leik, ég kom honum hreinlega ekki inn á síðustu 6-7 mínúturnar þar sem þeir menn sem voru að koma inn af bekknum voru frábærir líka og það er rosalega jákvætt vandamál.  Strákarnir sýndu það náttúrulega líka bara að þetta eru töffarar, þeir þora.  Strákar eins og Óli Helgi og Björn eru óhræddir að láta vaða og leikstjórnendurnir okkar voru að halda tempóinu eins og við vildum hafa það, svo er Haukur Pálsson náttúrulega bara kapituli út af fyrir sig sem er reyndar alveg magnaður kapituli. 

Þið byrjuðuð illa eins og þú segir en stígið svo upp þegar líður á leikinn, náið forystunni og látið hana aldrei af hendi.  Hvað var það sem skilaði þessum sigri?
Ég vil meina það að það hafi verið fyrst og síðast vörnin og þegar við erum að ná að komast almennilega inn í þetta og jafna og komast yfir, þá erum við að ná að stoppa þarna nokkrum sinnum og reyndar að fá stórar körfur á móti og vorum að setja stóra þrista þegar við vorum að fá góð stopp.  Þar sem það helst í hendur það er bara svona týpískt, með góðum stoppum þá kemur meira sjálfstraust og mönnum leið greinilega vel á vellinum og réttu skotin voru að detta.  Við þurfum þó að átta okkur á því samt að þetta er bara einn leikur af fjórum í riðli og við erum reyndar búnir að vinna þrjá og tryggja okkur sæti í úrslitaleik en erum langt frá því að vera búnir að vinna eitthvað, svo við þurfum að passa okkur á að halda okkur á jörðinni. Við fáum svo að sjá spennandi leik á morgun milli Svía og Dana um hvort liðið mætir okkur í úrslitaleik, en vissulega gott að geta farið í Finnaleikinn með því hugarfari að lykilmenn eins og Haukur sem eru búnir að spila mikið, sérstaklega síðustu tvo leiki, að við getum þá sparað þessa stráka að einhverju leyti fyrir sunnudaginn. 

Áttir þú von á svona góðu gengi fyrir mótið?Ég verð bara að játa það að ég veit eiginlega ekkert hverju ég átti von á.  Ég veit að þetta eru rosalega flinkir og flottir strákar og ég hafði mestar áhyggjur af því hvað við erum litlir.  Við erum ekki með neinn eiginlegan miðherja og svona fáliðaðir hvað sentimetra varðar þannig að það var kannski pínulítið áhyggjuefni, en svona eins og oft áður með íslensk lið þá er svona með baráttuþrekið og góðum varnarleik er ýmislegt hægt.  Þessir strákar hafa trú á sjálfum sér og það er allavega búið að skila þeim í úrslitaleik.