16:03
{mosimage}

 

(Haukur Helgi Pálsson, besti leikmaður U1 16 ára á Norðurlandamótinu) 

 

Svíar eru Norðurlandameistarar eftir 67-76 sigur á Íslendingum í úrslitaleik mótsins í flokki U 16 ára karla. Haukur Helgi Pálsson fór mikinn í íslenska liðinu með 30 stig, 13 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 varin skot. Íslenska liðið lenti snemma undir gegn Svíum og fór mikið púður í að saxa á forskot heimamanna. Slæm ákvörðun dómara undir lok leiksins hafði áhrif en heilt yfir hefðu Íslendingar þurft að berjast betur allan leikinn. Haukur Helgi Pálsson og Björn Kristjánsson voru valdir í úrvalslið mótsins og Haukur var verðskuldað valinn besti maður mótsins.

 

Svíar voru sjóðheitir í upphafi leiks og komust í 2-8 en íslensku piltarnir bitu frá sér og jöfnuðu metin 15-15. Svíar höfðu áfram frumkvæðið en Björn Kristjánsson setti mikilvæga þrista inn á milli sem héldu íslensku piltunum við efnið. Staðan í hálfleik var 29-40 Svíum í vil sem börðust af krafti og hittu vel úr skotum sínum ásamt því að leysa vel úr svæðisvörn Íslands.

 

Íslendingum gekk illa að brúa bilið í þriðja leikhluta en voru þó aldrei langt undan. Björn Kristjánsson lokaði leikhlutanum með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 45-56. Svíar voru vel með á nótunum gagnvart Hauki Helga Pálssyni og voru oft fljótir að fjölmenna í kringum piltinn enda langbesti maður mótsins. Það kom ekki að sök, Haukur skilaði sínu sóknarlega en það sem vantaði í íslenska liðið var hungur, barátta og vilji.

 

Þrennt ofantalið fór að gera vart við sig þegar nokkuð var liðið á fjórða leikhluta. Íslendingar fóru að þétta vörnina og unnu nokkra góða bolta en voru samt alltaf í vandræðum með stóru menn Svía í vörninni sem þó tóku ekki nema fjögur fleiri fráköst en Ísland í dag.

 

Þegar líða tók á fjórða leikhluta rönkuðu íslensku strákarnir við sér og hófu að berjast af krafti. Ólafur Helgi Jónsson minnkaði muninn í 62-69 með þriggja stiga körfu þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka og Hjalti Valur Þorsteinsson minnkaði muninn í 6 stig með öðrum þrist skömmu síðar, 65-71. Það var von með sterku áhlaupi en þá von slökkti einn dómari leiksins er hann dæmdi glórulausa óíþróttamannslega villu á Ísland og í kjölfarið kom tæknivíti sökum mótmæla frá varamannabekknum. Svíar gulltryggðu því Norðurlandameistaratitilinn á vítalínunni en heilt yfir voru þeir betra liðið í dag og verðuskulduðu sigur í leiknum.

 

Flott mót hjá íslensku strákunum sem ætluðu sér gullið en máttu sætta sig við silfur. Haukur Helgi Pálsson var vafalítið besti maður mótsins og var verðlaunaður sem slíkur við lokaathöfnina og þá var Björn Kristjánsson með honum í úrvalsliði mótsins. Sterkur hópur hjá íslenska liðinu þar sem allir leikmenn liðsins börðust af miklum krafti og geta þeir vel unað við silfrið, þó það sé súrt.

 

{mosimage}

(Björn Kristjánsson)

 

Stigaskor íslenska liðsins gegn Svíum:

 

Haukur Helgi Pálsson 30/ 13 fráköst/ 4 stoðsendingar/ 2 varin skot

Björn Kristjánsson 16

Styrmir Gauti Fjeldsted 6

Óli Ragnar Alexandersson 5

Ólafur Helgi Jónsson 5

Hjalti Valur Þorsteinsson 3

Anton Örn Sandholt 2

 

Leikir 16 ára karlaliðsins á Norðurlandamótinu

 

Ísland 104-80 Noregur

Ísland 73-62 Danmörk

Ísland 83-69 Svíþjóð

Ísland 62-74 Finnland

Ísland 67-76 Svíþjóð

 

nonni@karfan.is

 

{mosimage}

(Haukur Helgi)