13:15

{mosimage}

Ágúst Björgvinsson þjálfari 18 ára landsliðs kvenna var nokkuð svekktur að loknum leik Íslands og Danmerkur á NM unglingalandsliða, en íslensku stúlkurnar töpuðu þar heldur stórt gegn þeim dönsku. ATH viðtalið er skrifað í gærkvöldi.

Þið lékuð hörkuleik gegn Dönum núna áðan þar sem leikurinn hófst vel fyrir Ísland en svo fór að síga undan fæti.  Hvað fannst þér gerast í seinni hálfleik þegar þær dönsku ná stjórn á leiknum?
Við spilum ágætlega í fyrri hálfleik og leiðum í hálfleik með þremur stigum og það er eins og alltaf í svona fyrstu leikjum á svona mótum að þá er skjálfti í leikmönnum í upphafi.  Baráttan var til fyrirmyndar og við förum mjög langt á henni en það sem kannski vantaði upp á var að stelpurnar hafa ekki unnið marga leiki hér á Norðurlandamótinu í gegnum tíðina og það var það sem vantaði, meiri trú og meira hungur í að klára þennan leik.

Þið erum með 35 tapaða bolta í leiknum sem er of mikið í einum leik, hvaða skref þurfið þið að stíga til að bæta það fyrir næsta leik?
Þetta er bara spurning um hugarfar, hugarfarið hjá okkur var bara ekki rétt og leikmenn voru bara ekki með hausinn rétt skrúfaðan á í seinni hálfleik og við töpuðum þá 22 boltum í seinni hálfleik, við töpuðum líka mörgum boltum í fyrri hálfleik en bættum það allt upp með frábærri baráttu, en það var ekki alveg það sama uppi á teningnum í seinni hálfleik.  Ekki það að við vorum ekki að berjast, en það var ekki sami kraftur í liðinu og boltarnir sem við töpuðum voru náttúrulega allt of margir.  Miðað við liðið sem við erum með þá eigum við ekki að tapa svona mörgum boltum, við erum með úrvalslið bakvarða og það eru frábærir leikmenn í bakvarðarstöðunum í þessu liði og við eigum ekki að tapa svona mörgum boltum.  Ég myndi sætta mig við undir 15, þannig að þú sérð að við erum 20 boltum frá því.

Það er erfiður leikur framundan á morgun gegn Svíum, hvernig sérðu þann leik fyrir þér?
Ég horfi á það þannig að við erum að spila á móti Svíum á þeirra heimavelli og við höfum því allt að vinna.  Svíarnir eru með rosalega gott lið, með góða bakverði og góða stóra leikmenn og hávaxið lið, við höfum því allt að vinna í þessum leik.  Við þurufm að taka bara lítil skref og vinna í okkar veikleikum.  Það er nauðsynlegt að halda haus allar 40 mínúturnar á morgun og reyna þá að fækka töpuðum boltum.  Við erum að fara að spila gegn sterkara liði en við spiluðum við í kvöld þannig að ef við getum gert það aðeins betur en við gerðum í kvöld þá er markinu náð, allavega til að byrja með.

Texti og mynd: Snorri Örn Aðalsteinsson