16:03
{mosimage}

 

 

Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson gerði 17 stig og tók 3 fráköst þegar U 18 ára landslið Íslands beið lægri hlut gegn Norðmönnum á Norðurlandamótinu í Svíþjóð fyrr í dag. Lokatölur leiksins voru 67-84 Norðmönnum í vil sem léku stífan bolta og voru ófeimnir við að berja á Íslendingum. Strákarnir leika því um bronsið á morgun og mæta þá Svíum eða Dönum en þessi tvö lið eiga einmitt leik núna sem sker úr um hvort liðið mæti Íslendingum.

 

Norðmenn byrjuðu mun betur en bæði lið léku svæðisvörn framan af. Íslensku piltarnir virtust ekki klárir í þann líkamlega leik sem Norðmenn vilja spila og létu framhleypni Norðmanna ergja sig. Ólafur Ólafsson kom fljótt inn í íslenska liðið og þrátt fyrir nokkur feilspor á fyrstu sekúndunum fann hann fljótt taktinn og bauð upp á eina risatroðslu. Ólafur fékk ,,alley up” sendingu sem hann tróð viðstöðulaust við mikinn fögnuð viðstaddra. Ólafur gerði 5 síðustu stig Íslands í fyrsta leikhluta og minnkaði muninn í 18-22 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta.

 

Varnir beggja liða voru grimmar og á köflum mátti minnstu muna að upp úr syði millum manna enda höfðu dómarar leiksins enga stjórn á gangi mála og áttu þeir afleitan dag með flautu við tönn.

 

Íslandi gekk illa að skora í öðrum leikhluta en Arnþór Freyr Guðmundsson rauf þögnina eftir næstum 5 mínútna leik og minnkaði muninn í 21-36 með þriggja stiga körfu. Norðmenn voru þó betri og leiddu 32-45 í hálfleik.

 

Strákarnir náðu af mikilli hörku að berja sig inn í leikinn og minnkuðu muninn í sex stig í þriðja leikhluta en aftur sigu Norðmenn framúr og staðan að loknum þriðja leikhluta var 55-62 Norðmönnum í vil.

 

Íslendingar segja farir sínar ekki sléttar úr þessum leik og hægt og bítandi sigu Norðmenn framúr í fjórða leikhluta. Strákarnir fundu ekki taktinn og létu mikið púður í að þrátta yfir dómgæslunni sem var skiljanlegt en piltarnir voru samt ekki að leika sinn besta bolta í dag. Tómas Tómasson og Ólafur Ólafsson áttu góðar rispur sem og Arnþór Freyr Guðmundsson en heilt yfir vantaði að mæta Norðmönnum af meiri hörku og já… betri dómgæslu.

 

Lokatölur voru 67-84 Norðmönnum í vil sem mæta Finnum á morgun í úrslitaleiknum en Íslendingar leika um bronsið gegn Svíum eða Dönum en sá leikur fer fram kl. 11:45 að íslenskum tíma.

 

{mosimage}

 

Stigaskor Íslands í leiknum

 

Ólafur Ólafsson 17

Tómas Tómasson 13

Haukur Óskarsson 8

Arnþór Freyr Guðmundsson 7

Örn Sigurðarson 7

Guðmundur Auðunn Gunnarsson 4

Víkingur Sindri Ólafsson 3

Ægir Þór Steinarsson 3

Snorri Páll Sigurðsson 3

Sigfús Árnason 2

 

nonni@karfan.is

 

{mosimage}